Hoppa yfir valmynd
05.09. 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 9: Nýsköpun og uppbygging

9. Nýsköpun og uppbygging - mynd

Byggja upp trausta innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu og hlúa að nýsköpun

Fjárfestingar í innviðum, þ.e. samgöngum, áveitum, orku, upplýsinga- og hugbúnaðartækni eru mikilvægar til þess að ná fram markmiðum um sjálfbæra þróun. Góðir innviðir auka lífskjör almennings og geta skapað tæknilegar lausnir til umhverfisvænnar iðnvæðingar. Tæknivæðing og nýsköpun eru forsendur iðnvæðingar, en iðnvæðing er forsenda þróunar í fátækari ríkjum heimsins. Á Íslandi er íbúaþéttleiki sá minnsti í Evrópu, aðeins um 3,4 íbúar á km2 samanborið við um 116 íbúa á km2 að meðaltali í ESB. Deilist kostnaður við uppbyggingu innviða því á tiltölulega fáar hendur. Veðurfar reynir í mörgum tilfellum talsvert á innviði. Uppbygging og viðhald innviða er því krefjandi verkefni.

Innviðir á Íslandi

Innviðir rannsókna, þróunar og nýsköpunar á Íslandi eru almennt góðir. Þeir stuðla að eflingu vísindastarfsemi og hagnýtingu þekkingar í þágu samfélags og atvinnulífs. Frumkvöðlakraftur er mikill og stuðningur við frumkvöðla er góður. Styrkja þarf betur afrakstur af frumkvöðlastarfsemi svo hann leiði enn frekar til stofnunar nýrra fyrirtækja og markaðssetningar afurða á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Þjóðvegakerfi landsins uppfyllir ekki að fullu almenn evrópsk viðmið, t.d. eru enn einbreiðar brýr á aðalþjóðvegi landsins og ekki eru allir hliðarvegir bundnir varanlegu slitlagi. Ísland komst árið 2017 í efsta sæti meðal þjóða heims á lista Alþjóðafjarskiptasambandsins um stöðuna í upplýsingatækni og fjarskiptum en 176 ríkjum um allan heim er raðað í einkunnaröð.52 Virk samkeppni á fjarskipta- og upplýsingatæknimarkaði, miklar fjárfestingar og umtalsverð nýsköpun einkennir lönd sem raðast efst. Góður efnahagur, læsi og almenn menntun í löndunum stuðla jafnframt að því að almenningur geti nýtt upplýsinga- og fjarskiptatækni til fulls í eigin þágu. Markmið Íslands um 99,9% aðgengi að a.m.k. 100Mb þráðbundnum nettengingum fyrir árslok 2020 er að því er virðist það metnaðarfyllsta sem þekkist meðal þjóða. Breiðbandsvæðing landsins er langt komin og er nú unnið að lagningu ljósleiðara til lögbýla í sveitum landsins í samræmi við fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011-2022. Ljósleiðaratenging við útlönd er góð og flutningsgeta talsvert umfram eftirspurn. Engu að síður er unnið að styrkingu þessa sambands, m.a. til að geta mætt aukinni eftirspurn frá gagnaverum. Flutningskerfi raforku er traust og í stöðugri þróun en flestir landsmenn njóta tryggrar raforku og er unnið að frekari styrkingu þess á jaðarsvæðum. Markmiðið er að framleiðsla og dreifing raforku mæti þörfum atvinnulífs og almennings hvað varðar flutningsgetu og afhendingaröryggi og að kostnaður við flutning og dreifingu á raforku verði jafnaður á milli landshluta, sbr. t.d. byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024.53 Almenningssamgöngur hafa á síðustu árum eflst, eftir nokkurn samdrátt, með endurskipulögðu áætlanakerfi og betri samþættingu mismunandi ferðamáta. Saman myndar áætlanakerfi ferja, flugs og almenningsvagna víðfermt net almenningssamgangna á Íslandi. Alls má áætla að um 95% Íslendinga búi í innan við 10 km fjarlægð frá stoppistöð í netinu. Flugsamgöngur við útlönd eru mjög góðar og veturinn 2017-18 var boðið upp á beint áætlunarflug til 57 borga.54 Sókn ferðamanna til landsins hefur aukist mikið en á árinu 2017 var fjöldi erlendra ferðamanna um 2,2 milljónir sem var metfjöldi og 24,1% aukning frá árinu áður.55 Uppbygging innviða hefur þó ekki náð að halda í við þessa fjölgun ferðamanna.

Sjálfbærir innviðir og iðnaður

Meginmarkmið stefnumótandi áætlana ríkis og sveitarfélaga hverfast að miklu leyti um að innviðir landsins verði öruggir, áreiðanlegir, sjálfbærir og viðnámsþolnir. Ljóst er að innviðir eru lykill að samkeppnishæfni landsins, jafnt samkeppnishæfni atvinnulífsins, þróun byggðarlaga og almennri félagslegri velferð þegnanna. Þannig er t.d. markmið byggðaáætlunar 2018-2024 að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðalaga um allt land. Sérstök áhersla er lögð á stuðning við svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf og einnig á aðgerðir sem stuðla að auknu jafnrétti kynjanna. Innviðir iðnaðar á Íslandi miða nær undantekningarlaust við bestu fáanlegu tækni. Allir þættir innviða, þ.m.t. framleiðsluferli, eru í stöðugri þróun og tekið er tillit til alþjóðlegra skuldbindinga sem samþykktar hafa verið. Ein stærsta áskorunin eru skuldbindingar um minnkun losunar skv. Parísarsamkomulaginu. Þar eru skuldbindingar um að draga úr losun tiltekinnar starfsemi um 40% miðað við 1990. Grípa þarf til mikilvirkra aðgerða ef þessi markmið í loftslagsmálum eiga að nást, sem nánar er fjallað um undir markmiði 13.

Iðnþróun

Sjálfbær þróun er grunnstef í stefnu stjórnvalda. Einkum er lögð áhersla á að atvinnuvegir landsins byggi á sjálfbærri nýtingu auðlindanna. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023 er lögð áhersla á sjálfbæra framleiðni, samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, vöktun á áhættuþáttum og grænar lausnir í þágu umhverfismála. Rannsóknir, þróun og nýsköpun, sem eru forsendur efnahagslegra framfara og samfélagslegs velfarnaðar, tengjast sjálfbærri þróun með skýrum hætti. Það er ekki markmið að hlutur iðnaðar í atvinnulífi og vergri framleiðslu aukist. Áhersla er frekar á þekkingariðnað og aðrar þekkingargreinar en síður á hefðbundinn orkufrekan iðnað. Hlutur þekkingargreina fer ört vaxandi og má taka skapandi greinar sem dæmi um þá þróun. Annað dæmi er vöxtur líftæknigreina eins og líftækniiðnaðar sem sprottið hefur úr frjóum jarðvegi hefðbundinna atvinnuvega eins og sjávarútvegi.

Fjármálaþjónusta fyrirtækja

Aðgengi fyrirtækja að almennri fjármálaþjónustu, eins og bankalánum, er almennt gott. Framboð á fjármagni til frumfjárfestinga í sprotafyrirtækjum er minna en eftirspurn og sama gildir um fjármögnun til vaxtar fyrirtækja. Frá árinu 1997 hefur ríkið rekið Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem er frumfjárfestir. Markaðsráðgjöf á vegum hins opinbera er fyrst og fremst veitt af Íslandsstofu og sendiráðum landsins, en Tækniþróunarsjóður styður lítil fyrirtæki og frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu spor á erlendum mörkuðum.

Vísindarannsóknir

Í stefnu Vísinda- og tækniráðs er lögð áhersla á markvissa uppbyggingu innviða en höfuðáherslan er, eðli máls samkvæmt, á menntun, rannsóknir og nýsköpun. Leiðarljós stefnunnar er að fjárfesting í rannsóknum og þróun nái 3% af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2024, sem gerir mögulegt að takast betur á við hraðar samfélagsbreytingar og flóknar hnattrænar áskoranir, t.d. loftslagsbreytingar, fæðuöryggi og lýðheilsu. Yrði Ísland þá komið í fremstu röð ríkja í vísindum og tækniþróun. Tæknigeta iðngreina mun endurspegla þessa aukningu, eins og verið hefur, og munu þróunarlönd njóta þeirrar aukningar í gegnum stuðningsáætlanir þróunarsamvinnu okkar.

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Þeir styrkleikar Íslands sem hvað best nýtast þróunarlöndum til atvinnuuppbyggingar og styrkingar innviða eru á sviði sjávarútvegs og orkunýtingar. Þessum málaflokkum er einkum sinnt í gegnum Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Jarðhitaskólinn, sem rekinn er hjá Orkustofnun, veitir auk þess ungum sérfræðingum frá þróunarlöndum sérhæfða þjálfun í rannsóknum og nýtingu jarðvarma. Sjávarútvegsskólinn er rekinn hjá Hafrannsóknastofnun til að efla sérfræðiþekkingu í sjávarútvegi og fiskveiðum í þróunarlöndum. Þessir skólar eru dæmi um grunnstofnanir sem yfirfæra bestu fáanlegu þekkingu á sínum sérsviðum til samstarfsríkja Íslands í þróunarlöndum. Starfsemi þeirra er veigamikill þáttur í að auka sérþekkingu á þessum fræðasviðum sem stuðlar að efldum vísindum, rannsóknum, tækniþróun og nýsköpun í samstarfsríkjunum. Starfsemin hefur skýran fókus þar sem áhersla er lögð á varanlegan árangur.

 

52 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, 11. apríl 2018, Ísland í 1. sæti meðal þjóða heims í upplýsingatækni og fjarskiptum.

53 Alþingi, Stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024, althingi.is.

54 Túristi, 11. september 2017, Áætlunarflug til 57 erlendra borga og Akureyrar, turisti.is.

55 Ferðamálastofa, Heildarfjöldi erlendra ferðamanna, ferdamalastofa.is.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta