Hoppa yfir valmynd
08.10. 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 14: Líf í vatni

14. Líf í vatni - mynd

Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt

Heimshöfin gegna mikilvægu hlutverki við að gera jörðina byggilega. Breytingar í höfum, m.a. mengun, breyttir hafstraumar sem og breytt sýrustig og selta, hafa mikil áhrif á búsvæði þeirra lífvera sem þar lifa, sem og allt líf á jörðinni. Ísland er í fararbroddi þegar kemur að sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda. Heilbrigði sjávar er og verður mikilvægt fyrir íslenskan efnahag og mikilvæg uppspretta fæðu fyrir hundruð milljónir manna í Evrópu, Norður-Ameríku og víðar. Það er yfirlýstur vilji stjórnvalda að vinna með atvinnulífinu að vernd hafsins og sjálfbærri nýtingu auðlinda þess með samhentum aðgerðum. Heimsmarkmiðin setja ákveðinn ramma utan um þá vinnu bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Í þróunarsamstarfi leggur Ísland ríka áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins enda eru málefni hafsins forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu.

Umhverfisvernd og loftslagsmál

Íslensk stjórnvöld leggja mikla áherslu á að halda hafinu hreinu svo og að takmarka mengun frá landi og mengun sem berst langt að. Samkvæmt vöktun sem Umhverfisstofnun hefur umsjón með, m.a. á grunni samþykkta OSPAR-samningsins, er hafið umhverfis Íslands lítið mengað í samanburði við önnur hafsvæði Evrópu.65 Magn þungmálma, þrávirkra lífrænna efna og fleiri mengunarefna í hafinu og sjávarfangi er langt undir viðmiðunarmörkum hvað varðar heilsu manna og vistkerfi. Styrkur sumra mengunarefna fer minnkandi en vaxandi áhyggjur eru af mengun vegna rusls í hafi, ekki síst plasts. Til þess að bregðast við því hafa stjórnvöld sett sér stefnu um að draga úr magni plastsúrgangs, s.s. einnota plastumbúða og plastpoka, og einnig er stefnt að því að auka endurvinnsluhlutfall plasts. Sérstakt samkomulag er í gildi milli Úrvinnslusjóðs og útvegsmanna um endurvinnslu veiðarfæra og hefur það skilað góðum árangri en magn veiðarfæraúrgangs er um 1.100 tonn á ári.66 Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun koldíoxíðs í samræmi við Parísarsamninginn. Sýrustig hafs lækkar af völdum upptöku koldíoxíðs úr andrúmsloftinu og óttast er að í framtíðinni muni lækkunin hafa skaðleg áhrif á lífríki hafsins, á kalkþörunga, skeldýr og kóralla. Hafrannsóknastofnunhefur það hlutverk að stunda rannsóknir og vöktun á súrnun sjávar. Vöktunin á sér langa sögu á heimsvísu og hefur vakið athygli á alþjóðavettvangi. Um þessar mundir er unnið að uppfærslu á aðgerðaáætlun til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Vernd haf- og strandsvæða

Ákvarðanir íslenskra stjórnvalda um stjórn og nýtingu á vistkerfi sjávar og stranda eru byggðar á vísindalegri ráðgjöf með vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Ísland hefur tilkynnt 14 verndarsvæði til OSPAR-gagnagrunnsins. Hlutfall þessara svæða af heildarlögsögu landsins er um 0,07% en um 0,38% af svæðinu eru innan þriggja sjómílna. Fjölmörg önnur svæði innan landhelginnar eru lokuð í því skyni að vernda lífríki hafsins, ekki síst fiskstofnana. Sum eru lokuð tímabundið, en önnur hafa verið lokuð í áratugi vegna fiskveiðihagsmuna. Á sumum svæðum er bann við notkun ákveðinna veiðarfæra en á öðrum eru allar veiðar bannaðar. Þessi svæði hafa ekki verið tilkynnt til OSPAR og eru því ekki skráð þar. Stjórnvöld leggja áherslu á að ljúka kortlagningu hafsbotnsins innan landhelgi Íslands en sú kortlagning mun gegna lykilhlutverki við að taka frekari ákvarðanir um verndun viðkvæmra vistkerfa á hafsbotninum.

Sjálfbærar veiðar

Stefna stjórnvalda í fiskveiðistjórn miðar að því að lifandi auðlindir hafsins séu nýttar á sjálfbæran hátt. Markmið um að koma í veg fyrir ofveiði og ólöglegar veiðar er vel á veg komið. Á Íslandi hefur verið byggt upp fiskveiðistjórnarkerfi sem miðar að því að tryggja ábyrgar fiskveiðar sem byggjast á sjálfbærri nýtingu fiskstofna og góðri umgengni um vistkerfi hafsins. Stjórn fiskveiða á Íslandi byggist á víðtækum rannsóknum á fiskstofnum og vistkerfi hafsins. Ákvarðanir um veiðar og magn afla eru teknar á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar og öflugt eftirlit er með fiskveiðum og skráningu afla. Íslenskur sjávarútvegur nýtur ekki ríkisstyrkja sem stuðla að ofveiði og offjárfestingu í fiskiskipaflota né ólöglegum veiðum.

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Á alþjóðavettvangi sem og innanlands leggur Ísland áherslu á að stuðla að ábyrgri og sjálfbærri nýtingu lifandi auðlinda hafsins byggðri á traustri vísindalegri þekkingu. Íslensk stjórnvöld telja mikilvægt að fiskveiðistjórn sé á hendi þeirra sem mest eiga undir sjálfbærri nýtingu auðlindanna og því beri að styrkja svæðisbundna samvinnu um fiskveiðistjórn, ekki síst í því skyni að vinna gegn ólöglegum fiskveiðum. Í þróunarsamvinnu byggist stefna íslenskra stjórnvalda á því að auka fæðuöryggi og örva hagþróun á grundvelli jafnaðar og sjálfbærrar auðlindanýtingar. Áhersla er lögð á að nýta íslenska þekkingu við að leysa alþjóðleg og staðbundin viðfangsefni, s.s. á sviði fiskimála. Sjávarútvegsskóli Háskóla SÞ hefur starfað á Íslandi síðan 1998. Markmið hans er að efla sérþekkingu í sjávarútvegi og fiskveiðum í þróunarríkjum. Nám við skólann felst í sex mánaða þjálfun á Íslandi fyrir sérfræðinga frá þróunarlöndum en að auki skipuleggur Sjávarútvegsskólinn stutt námskeið í þróunarlöndum í samvinnu við heimamenn og eftir atvikum alþjóðlegar stofnanir. Einnig styður skólinn sérfræðinga frá þróunarlöndum til meistar-a og doktorsnáms í sjávarútvegsfræðum á Íslandi. Með því að miðla tækni- og vísindaþekkingu með þessum hætti til sérfræðinga í þróunarlöndum leggja íslensk stjórnvöld sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærni í fiskveiðum og vinnslu afurða í heimalöndum viðkomandi sérfræðinga. Ísland styður Alþjóðabankann a sviði fiskimála og fjármagnar stöðu sérfræðings á sviði fiskimála hjá Alþjóðabankanum með aðsetur í Accra í Ghana.

Sérfræðingurinn starfar að fiskverkefnum Alþjóðabankans í nokkrum löndum í Vestur-Afríku. Í samstarfi við Alþjóðabankann eru einnig í undirbúningi tvíhliða samstarfsverkefni á sviði fiskimála í Líberíu og Síerra Léone. Þá hýsir Ísland skrifstofu vinnuhóps Norðurskautsráðsins (e. Arctic Council) um málefni hafsins (PAME) og er hún staðsett á Akureyri. Ísland hefur verið leiðandi í alþjóðlegu samstarfi um málefni hafsins, hafréttarmál og fiskveiðar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO) og innan svæðisbundinnar fiskveiðistjórnar, m.a. á vettvangi NorðausturAtlantshafs fiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Ísland gegndi formennsku á aðildarríkjafundi Hafréttarsamningsins árið 2017. Þá tók Ísland virkan þátt í samningaviðræðum um fyrirkomulag og útkomu hafráðstefnu SÞ sem haldin var í júní 2017 í New York í þeim tilgangi að hraða vinnu að 14. Heimsmarkmiðinu um málefni hafsins. Þar lagði Ísland áherslu á ábyrga fiskveiðistjórn byggða á vísindalegri nálgun og mikilvægi þess að miðla af þekkingu þar að lútandi, líkt og gert er með hjálp Sjávarútvegsskóla Háskóla SÞ. Ísland lagði fram fyrirheit um aðgerðir til að stuðla að bættu ástandi sjávar. Þau lúta að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, ljúka kortlagningu hafsbotnsins innan íslenskrar efnahagslögsögu og koma á sjálfbærum nýtingaráætlunum fyrir nokkra mikilvægustu fiskstofnana við landið til viðbótar við þær nýtingaráætlanir sem eru þegar í gildi. Ísland styður einnig átak Umhverfisstofnunar SÞ gegn plastmengun í sjó. Um þessar mundir taka íslensk stjórnvöld, undir forystu utanríkisráðuneytisins, þátt í alþjóðlegum viðræðum um takmörkun á ríkisstyrkjum í sjávarútvegi á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem og viðræðum ríkjahóps með áþekkar áherslur og Ísland á sviði sjávarútvegs um sama efni.

65 Umhverfisstofnun, Mengun hafs og stranda, ust.is.

66 Úrvinnslusjóður, Veiðarfæri: Veiðarfæri úr gerviefnum, urvinnslusjodur.is

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta