Hoppa yfir valmynd
11.10. 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 15: Líf á landi

15. Líf á landi - mynd

Vernda og endurheimta vistkerfi á landi og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra, vinna að sjálfbærri stjórn skóga, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva jarðvegseyðingu, endurheimta landgæði og sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni.

Eyðing skóga og eyðimerkurmyndun af mannavöldum fela í sér miklar áskoranir fyrir sjálfbæra þróun og í baráttunni gegn fátækt í heiminum. Mikilvægt er að berjast gegn frekari eyðingu skóga og eyðimerkurmyndun og vinna markvisst að endurheimt landgæða til þess að ná markmiðinu um að vernda líf á landi.Lífríki Íslands mótast af því að landið er eldvirk og ung úthafseyja fjarri öðrum löndum, staðsett norður við heimskautsbaug. Jafnframt hafði landnám manna mikil áhrif og eru vistkerfi á landi mjög mótuð af áhrifum mannsins sem lengst af var háður auðlindum þeirra til lífsbjargar. Til dæmis var gengið mjög á skóga landsins, gróðurlendi eyddust vegna ósjálfbærrar beitar og votlendi voru ræst fram til landbúnaðar. Nú hefur tekist að stöðva þessa eyðingu fyrri alda að mestu leyti en verkefni við að endurheimta landkosti og að tryggja sjálfbæra nýtingu landgæða og vernd lífs á landi eru umfangsmikil. Vaxandi áhrif loftslagsbreytinga á undanförnum áratugum hafa þegar haft merkjanleg áhrif á lífríki landsins og munu væntanlega gera áfram.

Varðveisla líffræðilegrar fjölbreytni

Mikilvægur þáttur í sjálfbærri þróun felst í því að sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. Til þess að það takist þarf að grípa til ýmissa aðgerða til að vernda náttúruna. Í því sambandi skiptir ný náttúruverndarlöggjöf frá árinu 2015 sem styður við slíkar aðgerðir miklu máli fyrir Ísland.

Stofnun verndarsvæða er mikilvæg aðgerð til verndar lífríkis. Um 20% landsins eru nú friðlýst en töluvert skortir hins vegar á að friðlýstu svæðin endurspegli nægjanlega vernd lífríkis og þau búsvæði dýra og plantna sem þarfnast verndar. Á síðustu árum hefur verið unnið skipulega að flokkun landsins í vistgerðir að alþjóðlegri fyrirmynd. Í þeirri flokkun er dregið fram hvaða svæði á landinu sé mikilvægast að vernda. Þannig er að verða til góður grundvöllur þekkingar til að skipuleggja nauðsynlegar verndaraðgerðir til að koma í veg fyrir hnignun líffræðilegrar fjölbreytni í landinu. Það á einnig við um vistkerfi í fjalllendi. Eins er unnið að endurskoðun og uppfærslu á núverandi válistum fyrir plöntur og dýr með það að markmiði að draga fram bestu vísindalega þekkingu á stöðu einstakra tegunda. Löggjöf um villt dýr landsins byggist á því að þau séu öll friðuð en hins vegar eru veittar undanþágur til veiða á ákveðnum tegundum. Miklu máli skiptir að sífellt sé unnið að eflingu þekkingar til að bæta ákvarðanatöku um sjálfbærni veiðanna og meta hvaða tegundir þoli veiði.

Ágengar framandi lífverur stuðla að hnignun líffræðilegar fjölbreytni og þarf að sporna við slíku. Hér hafa nokkrar innfluttar tegundir reynst ágengar og má þar sérstaklega nefna mink, alaskalúpínu og skógarkerfil. Mikilvægt er að vinna að því að hefta útbreiðslu þeirra og leita leiða til að koma í veg fyrir innflutning á nýjum framandi tegundum sem kunna að reynast ágengar. Með nýjum náttúruverndarlögum hafa stjórnvöld betri tæki til þess.

Stjórnvöld hafa sett málefni hálendisins í forgang og hafið vinnu við að efla vernd þess með það að markmiði að það verði þjóðgarður í framtíðinni. Þar gæti Ísland orðið í fararbroddi við vernd fjalllendis og lífríkis þess.

Veiðiþjófnaður er takmarkað vandamál á Ísland, en er alþjóðlega mikið vandamál. Hér hafa þó reglulega komið upp tilvik um þjófnað og útflutning á eggjum friðaðra tegunda sem verður að uppræta. Ísland styður alþjóðlegar aðgerðir til að vinna gegn veiðiþjófnaði.

Vernd, endurheimt og sjálfbær nýting vistkerfa, þ.m.t. skóga

Barátta við uppblástur, gróðureyðingu og eyðimerkurmyndun hefur staðið yfir í rúmlega eina öld hér á landi. Margt hefur áunnist en fyrirliggjandi eru krefjandi verkefni til að stuðla að sjálfbærni landnýtingu og við endurheimt vistkerfa.

Eftir aldalanga eyðingu hefur náðst að stöðva eyðingu skóga á Íslandi. Skógaþekja varð hér minnst á áttunda áratug síðustu aldar eða einungis um 1%. Náttúrulegir birkiskógar landsins eru nú víða í verulegri útbreiðslu vegna samspils ræktunaraðgerða, minnkandi beitar og hlýnandi loftslags. Jafnframt hefur ræktun skóga með víðtækari markmið sjálfbærrar þróunar aukist, sérstaklega vegna bindingar kolefnis og staðbundinnar verðmætasköpunar. Þekja skóga hefur því liðlega tvöfaldast síðustu áratugi.

Stór hluti votlendis á láglendi var ræstur fram til landbúnaðar á árunum eftir stríð og fram undir 1980. Þetta hafði mikil áhrif á líf á landi. Einungis hluti þess lands sem var ræst fram var hins vegar tekinn til túnræktar eða beitar. Mikilvægt er að leita leiða til að endurheimta votlendisvistkerfi vegna mikilvægs lífríkis þeirra og til að auka bindingu kolefnis. Verulegur hluti gróðurþekju þurrlendisvistkerfa landsins er rofinn, ekki síst á viðkvæmari svæðum gosbeltisins. Með landgræðslu er unnið að endurheimt gróðurs og jarðvegs á þessum svæðum.

Stjórnvöld hafa áform um að auka verulega á næstu árum stuðning við endurheimt vistkerfa á landi, bæði vegna jákvæðra áhrifa þess fyrir lífríkin og vegna þeirra jákvæðu loftslagsáhrifa sem slíkar aðgerðir hafa.

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Ísland hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegri umræðu um þátt eyðimerkurmyndunar og endurheimtar vistkerfa í sjálfbærri þróun. Í samstarfi við Háskóla Sameinuðu þjóðanna rekur Ísland Landgræðsluskóla (UNU-LRT) sem vinnur að uppbyggingu þekkingar í þróunarlöndum á því sviði og miðlar af reynslu Íslendinga við endurheimt landgæða og landgræðslu. Ísland er á meðal stofnenda vinahóps Eyðimerkursamningsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem kom því til leiðar að verndun, endurheimt og stöðvun landeyðingar hlyti ríkari sess í Heimsmarkmiðunum en áætlað var. Síðastliðið ár hefur Ísland einnig leitt samningaviðræður um ályktun er varðar eyðimerkurmyndun og landgræðslu í annarri nefnd SÞ sem fjallar um sjálfbæra þróun.

Ísland hefur jafnframt beitt sér fyrir því að málefni sem varða endurheimt vistkerfa geti orðið hluti af samþættum aðgerðum við að berjast gegn loftslagsbreytingum á vettvangi Loftslagssamnings SÞ (UN-FCCC). Íslenskir sérfræðingar hafa einnig tekið þátt í hnattrænu samstarfi um jarðvegsmál í þágu fæðuöryggis (e. Global Soil Partnership for Food Security) á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO). Ísland hefur að auki verið virkur þátttakandi í ýmsum alþjóðasamningum sem lúta að lífi á landi og má þar sérstaklega nefna Samninginn um líffræðilega fjölbreytni (UN-CBD), Ramsar-samninginn um vernd votlendis og CITES-samninginn um alþjóðaverslun með plöntur og dýr í útrýmingarhættu. Vinnuhópur Norðurskautsráðsins (e. Arctic Council) um verndun lífríkis (CAFF) er, eins og áður hefur fram komið, staðsettur á Akureyri.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta