Blæðingar kvenna stoppa ekki í hamförum
Mörgum konum þykir sá tími þegar blæðingar hefjast og standa yfir einhver sá leiðinlegasti og erfiðasti mánaðarins. Blæðingar hamla konum gjarnan. Þær finna fyrir óþægindum,upplifa kvíða yfir því að það leki blóð út fyrir, þurfa að skipuleggja dagana vel, svo ekki sé talað um fyrirtíðarspennu og túrverki. Blæðingar kvenna stoppa ekki þótt hamfarir af náttúrunnar hendi, eða mannavöldum, dynji yfir.
Það er erfitt að ímynda sér að þurfa að flýja heimili sitt vegna stríðs, átaka, flóða eða fellibylja og vita ekki hvort eða hvenær maður geti snúið aftur. Þótt það að byrja á túr geti hljómað eins og lítilfjörlegt vandamál í stóra samhenginu, þá er það aðeins til að auka á erfiðleikana, kvíðann og vanlíðanina. Hvað myndi kona gera ef hún hlypi út án alls, án yfirhafnar eða síma? Án dömubinda, túrtappa, álfabikars?
Eitt mikilvægasta verkefni alþjóðlegrar þróunarsamvinnu er að tryggja fólki á neyðarsvæðum hreinlæti. Lengi vel takmarkaðist hugmynd þróunargeirans um hreinlæti við aðgengi að hreinu drykkjarvatni, sem er vissulega lífsnauðsynlegt og kemur í veg fyrir útbreiðslu ýmissa sjúkdóma eins og kóleru. Á síðustu árum hefur mikil vitundarvakning átt sér stað innan alþjóðasamfélagsins um hreinlæti á neyðartímum. Það heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er lýtur að hreinu vatni er ekki aðeins ætlað að tryggja aðgengi að hreinu vatni, heldur einnig hreinlætisaðstöðu.
Fjöldi kvenna og stúlkna sem eru í flóttamannabúðum bíða í örvæntingu eftir sólsetri, til þess eins að komast á klósettið óséðar þegar þær eru á blæðingum, þar sem þeim þykir skömm að því að aðrir verði þess var að þær eru á blæðingum. Það er ekki alls staðar samfélagslega viðurkennt að ræða blæðingar kvenna á jafn opinskáan hátt og hér á landi. Ferðir á klósettið í myrkri auka einnig líkur á því að konur og stúlkur verði fyrir ofbeldi. Hreinlæti er einnig oft ábótavant svo þær eiga á hættu að smitast af banvænum sjúkdómum. Aðgengi að hreinu vatni og salernisaðstöðu, getur skilið á milli lífs og dauða.
Rauði krossinn á Íslandi hefur í samstarfi við Alþjóðsamband Rauða krossins hrundið af stað verkefni sem felur í sér aukna fræðslu og leiðbeiningar fyrir starfsmenn og sjálfboðaliða Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem starfa á neyðarsvæðum. Verkefninu er ætlað að stuðla að vitundarvakningu um þarfir kvenna á blæðingum og að tryggt sé að þörfum þeirra sé ávallt sinnt á vettvangi. Þá hefur pökkum sem innihalda dömubindi, bæði fjölnota og einnota, poka, hreinar nærbuxur og fleira, verið dreift.
Í dag, 19. nóvember, er alþjóðlegi salernisdagurinn. Honum er ætlað að vekja athygli á mikilvægi hreinlætis og salernisaðstöðu fyrir alla. Þú getur brugðist við ofangreindum aðstæðum með því að gerast Mannvinur Rauða krossins á Íslandi og hjálpa okkur að halda þessu verkefni lifandi og koma til móts við þarfir stúlkna og kvenna með þessum hætti. Það er eitt skref í rétta átt til að stuðla að aukinni vernd og velferð stúlkna og kvenna á átaka- og hamfarasvæðum. Eitt risastórt skref – sem getur bjargað lífi.