Hoppa yfir valmynd
05.03. 2019 Utanríkisráðuneytið

Lagaleg staða kvenna á vinnumarkaði: Umfjöllun um viðburð utanríkisráðuneytisins og Alþjóðabankans

Frá pallborðsumræðunum, t.f.v. Ulla Tørnæs, Guðlaugur Þór Þórðarson, Kristalina Georgieva og Hanna Birna Kristjánsdóttir. Ljósmyndir: Valgarður Gíslason - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra opnaði málstofu sem utanríkisráðuneytið hélt í samstarfi við Alþjóðabankann í síðdegis í gær um lagalega stöðu kvenna á vinnumarkaði. Tilefnið var ný skýrsla Alþjóðabankans – Women, Business and the Law 2019 – sem kynnt var af starfandi forseta Alþjóðabankans, Kristalina Georgieva.

Skýrslan rýnir 10 ára tímabil, 2009-2017, og þá lagalegu stöðu sem konur og karlar hafa á vinnumarkaði í 187 ríkjum. Skýrslan veitir innsýn inn í aðstæður kvenna þegar þær standa frammi fyrir því að fara á vinnumarkaði og stunda viðskipti, með tilliti til hvernig löggjöf ríkja styður við atvinnuþátttöku kvenna. Kristalina Georgieva benti á mikilvægi þess að skoða slíka löggjöf og regluverk margra ríkja væri enn fyrirstaða fyrir efnahagsleg tækifæri og framgang kvenna og jafna atvinnuþátttöku þeirra á við karla. Á heimsvísu benda niðurstöður skýrslunnar til þess að ríki veiti konum að meðaltali 75% af réttindum karla á vinnumarkaði.

Auk ávarps frá Kristalinu Georgieva, starfandi forseta Alþjóðabankans, voru fluttu stutt ávörp. Stefán Sigurðsson forstjóri Sýnar fór yfir þær leiðir sem einkafyrirtækið Vodafone fór í til að jafna stöðu kynjanna í fyrirtækinu en Vodafone fékk hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2017. Hanna Birna Kristjánsdóttir stjórnarformaður samtakanna Women Political Leaders fór yfir leiðir sem stjórnvöld og löggjafinn geta farið til að jafna stöðu kynjanna og sagði að skýrsla líkt og sú sem kynnt var í gær veitti góða tölfræði um það hvar ríki verði að standa sig betur. Kondwani Macdonald Mhone nemi við Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og sérfræðingur í kvenna- og barnamálaráðuneyti Malaví ræddi nokkrar aðgerðir sem stjórnvöld í Malaví hafa farið í síðustu ár til að bæta stöðu jafnréttismála í landinu. Niðurstöður skýrslu Alþjóðbankans benda til þess að Malaví, auk nokkurra annarra ríkja í sunnanverðri Afríku, hafi innleitt hvað flestar lagaumbætur á síðastliðnum áratug. Meðal þeirra eru lög sem styðja við aðgerðir til frekari atvinnuþátttöku kvenna svo og aðgerðir til að stemma stigu við kynbundnu ofbeldi.

Kristín A. Árnadóttir sendiherra jafnréttismála, sem var jafnframt fundarstjóri, stýrði pallborðsumræðum þar sem þátt tóku þau Kristalina Georgieva, Guðlaugur Þór Þórðarson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Ulla Tørnæs, þróunarmálaráðherra Danmerkur. Til umræðu var efni skýrslunnar með áherslu á lærdóm sem draga megi af því sem vel gengur hjá ríkjum. Öll viljum við lifa í samfélagi þar sem allir fá notið sín og hafi jöfn tækifæri og þegar vel gengur á að deila þeim sögum og þeirri þekkingu, var eitt meginstefið í umræðunni. Fulltrúar í pallborðinu voru sammála um að bretta verði upp ermar þegar kemur að innleiðingu laga og regluverks, ekki sé nóg að hafa góðar og gildar stefnur og áætlanir, þær verði að framkvæma og fjármagn þurfi til þess að setja vinnu í hraðari farveg. Ef ekki, þá náum við ekki sameiginlegum markmiðum okkar um betri heim, sem við vinnum að gegnum heimsmarkmiðin. Samhljómur var um að fimmta heimsmarkmiðið um jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna og stúlkna vegi þungt, enda forsenda fyrir því að mörg hinna heimsmarkmiðanna náist.

 

Viðburðurinn í heild

  • $alt
  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta