Hoppa yfir valmynd
25.03. 2019 Utanríkisráðuneytið

Vatn fyrir alla?

Ljósmynd: ABC Barnahjálp. - mynd

Síðastliðinn föstudag var alþjóðlegur dagur vatnsins, 22. mars. Árið 1993 stóðu Sameinuðu þjóðirnar fyrst fyrir degi vatnsins og hafa gert óslitið síðan. Á vef ABC Barnahjálpar birtist eftirfarandi pistill í tilefni alþjóðlega vatnsdagsins:

„Vonandi eigum við sem flest dásamlegar minningar úr barnæsku sem tengjast því að sulla í pollum eða í vatnsslag við krakkana í hverfinu. Hér á Íslandi er einn vatnsmesti foss Evrópu og vatnsmesta hverinn eigum við líka og svo mætti lengi telja. Þess vegna leiðum við ef til vill ekki hugann að því að það er hreint ekki sjálfsagt að hafa þennan óhindraða aðgang að vatni. Að geta teygað ískalt og hreint vatnið beint úr krananum heima eða hvar sem er.

Þemað í ár á degi vatnsins er ‘Leaving no one behind’ sem vísar til þess að enginn ætti að vera skilinn út undan þegar kemur að aðgangi manna að hreinu vatni. Það eru grundvallarmannréttindi og undirstaða velferðar að íbúum jarðar sé tryggt aðgengi að hreinu neysluvatni.

Staðreyndin er samt sú að um 2.1 milljarður manna hefur ekki aðgang að hreinu vatni heima hjá sér. Ástæður þess eru fjölmargar en að því er fram kemur á vef Sameinuðu þjóðanna. Má þar helst nefna þjóðfélagsstöðu, þjóðerni, trúarbrögð, búsetu og fjárhagsstöðu. Síðan má ekki líta framhjá þáttum á borð við loftslagsbreytingar, fólksfjölgun og að 65 milljónir manna eru á flótta og hafast við í flóttamannabúðum þar sem aðstæður eru sjaldnast kræsilegar. Það er þó réttur hvers og eins að hafa aðgang að hreinu vatni burtséð frá því hver hann er og hvaðan hann kemur.

Einn af hverjum fjórum skólum án hreins vatns

Einn af hverjum fjórum grunnskólum í heiminum hefur ekki aðgang að hreinu (öruggu) vatni. Nemendur í þeim skólum þurfa annað hvort að vera þyrstir eða drekka vatn sem ekki er vitað að sé í lagi að drekka. ABC hefur unnið markvisst að því að nemendur í ABC skólunum hafi aðgang að hreinu vatni á skólatíma og þar sem ekki voru vatnsbrunnar hefur ABC látið bora fyrir vatni.

Árið 2018 fékk ABC barnahjálp styrk frá utanríkisráðuneytinu sem nam um 370 þúsund krónum, til að tryggja hreint vatn við ABC skólana í Úganda þar sem um 1.400 börn eru styrkt til náms gegnum ABC. Markmið verkefnisins var að setja upp vatnsstanda, sem tryggja nemendum og starfsfólki hreint vatn öllum stundum og vernda þau fyrir þeim smitsjúkdómum sem berast með menguðu vatni.

Í tilefni dagsins fengu öll börnin í leik- og grunnskólunum í Kitetika og grunnskóla Kasangati vatnsflösku til eignar frá ABC til að nota með nýju vatnsstöndunum við skólana og eins og sjá má á myndunum er almenn ánægja með brúsana og vatnsstandana.

Það er afskaplega sorgleg staðreynd að á hverjum einasta degi láta rúmlega 700 börn yngri en fimm ára lífið vegna niðurgangspesta af völdum óhreins vatns. Þetta eru um 5000 börn á viku eða um 260.000 börn á ári. Nálgast má skýrslu SÞ um þetta HÉR.

Hvað er til ráða? Hvert og eitt okkar getur lagt sitt af mörkum til að stuðla að því að fleiri getið notið þeirra „sjálfsögðu“ réttinda að hafa aðgang að hreinu vatni. Það getum við gert með almennri vitundarvakningu, breyttum hugsunarhætti og með því að leggja málefninu lið eftir getu hvers og eins. Sameinuðu þjóðirnar þrýsta nú á stjórnvöld með það að augnamiði að til verði reglugerðir og lagarammi sem verði til þess að nægilegu fjármagni verði veitt til að þeir verst settu, jaðarhóparnir, fái aðgang að hreinu vatni.“

  • Vatn fyrir alla? - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

6. Hreint vatn og hreint

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta