Hoppa yfir valmynd
26.03. 2019 Utanríkisráðuneytið

Nýjar reglur um styrkveitingar til félagasamtaka í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð

Ljósmynd frá Malaví: gunnisal - mynd

Utanríkisráðuneytið hefur átt í löngu og farsælu samstarfi við félagasamtök í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð og stuðningur ráðuneytisins við samtökin hefur verið á fjárlögum íslenskra stjórnvalda frá árinu 2012. Fjárheimildir yfirstandandi fjárlagaárs til samstarfs við félagasamtök nema 417 milljónum króna, sem er hækkun upp á rúmlega 138% frá árinu 2012 þegar 175 milljónir króna voru á fjárlögum til félagasamtaka í málaflokknum.

Birtar hafa verið nýjar reglur um styrkveitingar utanríkisráðuneytisins til félagasamtaka í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð. Reglurnar taka við af verklagsreglum ráðuneytisins sem hafa verið í gildi frá árinu 2015 og eru settar í samræmi við ákvæði í lögum nr. 123/2015 um opinber fjármál og reglugerðar nr. 642/2018 um styrkveitingar ráðherra.

Taka reglurnar mið af fyrri verklagsreglum og þeirri reynslu sem fékkst við framkvæmd þeirra. Reglurnar voru skrifaðar í opnu samráði, en drög að þeim voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 12.-26. október 2018. Bárust tvær athugasemdir við drögin og var brugðist við þeim.

Helsta nýbreytnin er reglunum er að þremur verklagsreglum hefur verið steypt saman í eitt regluverk. Ástæða þessa er sú að þrátt fyrir að eðli þeirra verkefna sem reglurnar ná yfir eru þær kröfur sem gerðar eru til umsækjenda að miklu leyti keimlíkar.

Samstarf við félagasamtök? Hvað varð um borgarasamtökin?

Nýbirtar reglur tilgreina að styrkhæfir aðilar skuli vera skráðir í fyrirtækjaskrá sem félagasamtök annað hvort að rekstrarformi eða atvinnugreinaflokkun og starfa í þágu ófjárhagslegs tilgangs. Er þetta gert til að ná utan um hugtakið „borgarasamtök“, sem ráðuneytið hefur notast við síðastliðin ár. Samtímis er leitast við að nota skilgreiningar sem hafa merkingu í íslensku samhengi.

Hugtakið „borgarasamtök“ kemur líklegast fyrst fram á íslensku í samhengi alþjóðlegrar þróunarsamvinnu í skýrslu Þóris Guðmundssonar frá árinu 2014 um skipulag, skilvirkni og árangur í íslenskri þróunarsamvinnu. Er því ætlað að ná utan um það sem á ensku kallast Civil Society Organisations. Í skýrslunni kemur fram að alþjóðleg skilgreining á hugtakinu nái utan um hvers konar samtök sem standa utan markaðarins og eru hvorki hluti hins opinbera né fjölskyldu þeirra sem að þeim standa. Samtökin séu vettvangur fólks sem skipuleggur sig sjálft til að framfylgja sameiginlegum hagsmunum á almannavettvangi og nær hugtakið yfir fjölbreytta flóru samtaka, hvort sem þau byggjast á félagaaðild, sameiginlegum málstað eða veitingu þjónustu.

Í stefnumiðum utanríkisráðuneytisins í samstarfi við íslensk borgarasamtök í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð 2015-2019 er hugtakið skilgreint sem „fjölbreytt flóra samtaka og bandalaga um margvísleg málefni, hugsjónir og hagsmuni sem þátttakendur standa fyrir af eigin hvötum, utan við hið formlega valdakerfi og án þess að vera ætlað að skapa eigendum sínum arð. Mörg borgarasamtök eru knúin áfram, að minnsta kosti að einhverju leyti, af sjálfboðaliðum. Gert er ráð fyrir að þau hafi formlegt stjórnskipulag og að ábyrgðarskipting sé skýr.“

Á þeim fjórum til fimm árum síðan að hugtakið var þannig skilgreint hefur það ekki ratað inn í almenna málnotkun. Þannig skilar leit á Google aðeins í kringum 1.900 niðurstöðum, flestar hverra vísa á síður Stjórnarráðsins eða í efni frá utanríkisráðuneytinu.

Í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra eru aðilar með rekstrarformið almenn félagasamtök skilgreindir sem „Skipulagsbundin félög sem starfa í þágu ófjárhagslegs tilgangs hafa verið nefnd almenn félög. Almenn félög eru skipulagsbundin, varanleg samtök tveggja eða fleiri aðila, sem stofnað er til af fúsum og frjálsum vilja með einkaréttarlegum löggerningi í því skyni að vinna að ófjárhagslegum tilgangi. […] Sem dæmi um almenn félög má nefna stjórnmálaflokka, íþróttafélög, skákfélög, fagfélög, stéttarfélög, samtök vinnuveitenda, mannúðarfélög og menningarfélög.“

Í íslenskri atvinnugreinaflokkun skilgreinir Hagstofa Íslands félagasamtök sem aðila þar „sem eru fulltrúar ákveðinna hagsmunahópa eða miðla hugmyndum sínum til almennings. Í þessum samtökum eru yfirleitt félagsaðilar en auk þeirra geta þeir sem standa fyrir utan samtökin haft hag af starfsemi þeirra.“ Er hér um sannarlega um fjölbreytta flóru að ræða, allt frá samtök í atvinnulífinu og félög atvinnurekenda til starfsemi fagfélaga, stéttarfélaga og starfsemi þess sem í skilgreiningu Hagstofunnar kallast „önnur félög“. Síðastnefnda flokknum tilheyra þau samtök sem síðastliðin sjö ár hafa þegið hæstu styrkina frá utanríkisráðuneytinu, s.s. Rauði krossinn á Íslandi, Hjálparstarf kirkjunnar, SOS Barnaþorpin á Íslandi, Barnaheill og ABC barnahjálp.

Sægur af mögulegum samstarfsaðilum

Í október 2018 voru á Íslandi fleiri en 15.800 aðilar skráðir sem félagasamtök að rekstrarformi eða skv. atvinnugreinaflokkun. Án fordóma um getu eða áhuga einstaka samtaka má líklegast gera ráð fyrir að þónokkur fjöldi þessara aðila hafi sérstakt erindi í alþjóðlegri þróunarsamvinnu eða mannúðaraðstoð, s.s. félög í fjárhættu- og veðmálastarfsemi, ferðaklúbbar eða húsfélög.

Jafnvel þegar búið er að grisja listann umtalsvert og jafnvel líta aðeins til þeirra samtaka sem eru félagasamtök að rekstrarforminu til standa eftir tæplega 9.300 félagasamtök á Íslandi sem ekki er hægt að útiloka að kynnu að eiga erindi í alþjóðlega þróunarsamvinnu eða mannúðaraðstoð.

Utanríkisráðuneytið hefur átt í mjög farsælu samstarfi við hóp af reyndum samtökum, sem saman mynda Samstarfshóp íslenskra mannúðarsamtaka í alþjóðlegu hjálparstarfi og þróunarsamvinnu. Góður og mælanlegur árangur hefur náðst í verkefnum þessara samtaka, eins og sjá má í úttektar- og rýnisskýrslum sem birtar eru á vef utanríkisráðuneytisins. Á sama tíma er ljóst að í viðleitni alþjóðasamfélagsins í að ná þeim háleitu mörkum sem sett eru í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er þörf á víðtæku samstarfi ólíkra aðila. Með nýjum reglum um styrkúthlutanir utanríkisráðuneytisins til félagasamtaka í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð er vonast til að unnt verði að virkja fjölbreyttari hóp samstarfsaðila en hingað til hefur verið.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta