Stuðningur Íslands við fátækustu löndin: samvinna við Alþjóðaframfarastofnunina
Einn helsti vettvangur Íslands til að styðja við fátækustu lönd veraldar er með samvinnu við Alþjóðaframfarastofnunina (International Development Association, IDA). IDA er sú stofnun innan Alþjóðabankasamsteypunnar sem aðstoðar fátækustu þróunarríkin með styrkjum, hagstæðum lánum og ábyrgðum til þróunarverkefna, auk ráðgjafar. Ísland gerðist aðili að stofnuninni árið 1961, á fyrsta ári starfseminnar.
Á hverju ári leggur IDA fram um 20 milljarða Bandaríkjadala, um 2.500 milljarða íslenskra króna, til nýrra verkefna í þróunarlöndum. Einungis fátækustu lönd veraldar njóta stuðnings frá IDA og þau eru nú 75 talsins. IDA er mikilvægasta stofnunin sem styður við uppbyggingu innviða í þessum löndum, svo sem við að bæta aðgengi og gæði grunnþjónustu eins og lýðheilsu og grunnmenntun, auk þess sem hún vinnur að úrbótum í stjórnarháttum. Stofnunin vinnur að auki að því að auka hagvöxt og skapa atvinnutækifæri þar sem jöfnuður og jafnrétti er haft að leiðarljósi. IDA er enn fremur lykilstofnun í fjármögnun aðgerða í fátækustu ríkjunum til að sporna gegn loftslagsbreytingum og gera stjórnvöldum betur kleift að bregðast við áhrifum af þeim. Tveir af hverjum þremur íbúum jarðar sem nú lifa við sárafátækt búa í þeim ríkjum sem njóta stuðnings IDA.
Starfsemi IDA er í sífelldri mótun svo hún geti aðlagast nýjum aðstæðum og áskorunum. Á síðasta ári voru farnar nýjar leiðir til að virkja enn betur aðila atvinnulífsins til uppbyggingar í fátækustu ríkjunum og á óstöðugum svæðum. Þá var efldur stuðningur við flóttamenn og viðtökusamfélög auk þess sem IDA hóf útgáfu skuldabréfa á almennum markaði í því skyni að margfalda það fjármagn sem stofnunin hefur úr að spila.
Leiðir til að virkja atvinnulífið í fátækustu og óstöðugustu ríkjunum
Það er vel þekkt staðreynd að lönd heims munu ekki ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna án víðtækari þátttöku og framlags, meðal annars frá atvinnulífinu. Fjárfestingar einkafyrirtækja í fátækustu og óstöðugustu ríkjunum, ekki síst ríkjum þar sem innviðir og stjórnarfar er veikt, eru mikil áskorun. IDA hefur því lagt aukna áherslu á að skapa og styðja við markaði þannig að hjól atvinnulífsins taki að snúast og fleiri tækifæri skapist. Í þessu skyni var 2,5 milljörðum Bandaríkjadala í síðustu endurfjármögnun IDA varið til að gera fjárfestingar í fátækustu löndunum að vænlegri kosti.
Skuldabréfaútgáfa nýjung í starfi IDA
IDA fór á almennan markað með útgáfu skuldabréfa á síðasta ári en þannig gefst almennum fjárfestum nú í fyrsta sinni tækifæri til að fjárfesta í IDA, sem hefur síðustu 60 ár nær eingöngu verið fjármögnuð með opinberu fé frá framlagsríkjum og endurgreiðslum lána. Með þessu móti næst að virkja þrjá bandaríkjadali á móti hverjum einum dal sem framlagsríki leggja til stofnunarinnar. Þessu tækifæri var tekið opnum örmum sem fýsilegum fjárfestingarkosti til félagsáhrifa og er grundvöllur fyrir enn betri nýtingu á framlögum framlagsríkja í IDA.
IDA leggur sín lóð á vogarskálarnar til að takast á við flóttamannavandann
Málefni flóttafólks hafa verið í brennidepli síðustu ár en 70 milljónir manna í veröldinni hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín, þar af eru rúmlega 25 milljónir skilgreindar sem flóttafólk. IDA hefur leitað leiða til að bregðast við þessari áskorun með því að styðja við þróunarríki sem taka við flóttafólki og gera þeim þannig kleift að styðja við flóttafólk í nágrenni heimahaganna. Samstarfsland Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu, Úganda, hýsti 1,2 milljónir flóttafólks við árslok 2018, en Ísland vinnur meðal annars að verkefnum til að styðja við móttökusamfélög flóttamanna í norðurhéruðum landsins. IDA einbeitir sér að allra erfiðustu svæðunum og hefur beint stuðningi til Jemen sem nemur 166 milljörðum íslenskra króna. Þar hefur IDA tekið höndum saman við aðra þátttakendur í alþjóðasamfélaginu, svo sem mannúðarstofnanir Sameinuðu þjóðanna og alþjóðleg hjálparsamtök.
Þátttaka Íslands í IDA
Ísland hefur ætíð lagt ríka áherslu á virka þátttöku á vettvangi IDA, enda hafa áherslur Íslands í þróunarsamvinnu jafnan verið á að aðstoða fátækustu löndin. Íslands tekur þátt í starfi IDA á margvíslegan hátt. Sem eitt framlagsríkja tekur Ísland sæti við samningaborðið þar sem stefna IDA og forgangsmál eru mótuð. Nú standa yfir samningaviðræður um 19. endurfjármögnun stofnunarinnar þar sem Ísland hefur meðal annars lagt áherslu á jafnréttis- og loftslagsmál og málefni hafsins. Í öðru lagi eru málefni IDA, verkefna- og fjármögnunartillögur, lagðar fyrir stjórn Alþjóðabankans. Þar deilir Ísland sæti aðalfulltrúa í 25 manna stjórn með kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Ísland fer nú með formennsku kjördæmisins og ber þá jafnframt ábyrgð á að samræma málefnastarf landanna átta. Ísland tók við hlutverkinu um mitt ár 2019 og Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og sendiherra, tók jafnframt sæti sem aðalfulltrúi kjördæmisins í stjórn bankans. Sýnileiki Íslands á vettvangi Alþjóðabankans er því mikill um þessar mundir. Að lokum má nefna að Ísland hefur tekið þátt í samstarfsverkefnum með IDA. Jarðhitaleit í löndum Sigdalsins í Austur-Afríku er gott dæmi um slíkt.
Íslendingar geta verið stoltir af 58 ára farsælu samstarfi við IDA, en með þeim hætti hefur Ísland lagt sín lóð á vogarskálarnar við að fást við hnattrænar áskoranir og styðja við fátækustu ríki heims. Með samstarfi sínu við IDA hefur Ísland í gegnum tíðina átt þátt í að veita 86 milljónum manna aðgang að heilnæmu vatni og 657 milljónum manna grunnheilbrigðisþjónustu, svo dæmi séu tekin. Nýlegt dæmi um það hversu mikilvægt hlutverk IDA er á alþjóðavettvangi er 300 milljóna Bandaríkjadala stuðningur stofnunarinnar við að vinna bug á ebólufaraldrinum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.
Í nýrri stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu sem samþykkt var af Alþingi í vor segir að með virkri þátttöku í alþjóðlegri þróunarsamvinnu leitist Ísland við að uppfylla pólitískar, lagalegar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna og er þátttaka Íslands í IDA mikilvægur hluti af því að uppfylla slíkar skyldur.