Jarðhitaskólinn: Vettvangsferð til Mið- og Suður-Ameríku
Í janúar og febrúar fór Málfríður Ómarsdóttir, umhverfisfræðingur Jarðhitaskólans í vettvangsferð til núverandi og mögulegra framtíðar samstarfsstofnana í Níkaragva, Kólumbíu og Perú. Tilgangurinn var að taka viðtöl við kandídata fyrir sex mánaða þjálfunina á Íslandi, athuga möguleika á samstarfi og skoða bakland jarðhitaþróunar í nýjum samstarfslöndum.
Í Níkaragva tók hún viðtöl við nema frá orkumálaráðuneytinu og helstu jarðhitafyrirtækjum landsins og átti þar að auki fund með dr. Paul Ökvist ráðuneytisstjóra landsstefnu forsetans (Ministro-Secretario para Políticas Nacionales de la Presidencia de la República) til að fræðast um framtíðarstefnu landsins í jarðhitaþróun en hann er einnig fulltrúi landsins hjá skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (UNFCCC).
Málfríður átti einnig fund með Salvador Mansell orkumálaráðherra Níkaragva til að kynna starfsemi skólans, athuga og ræða áhuga landsins um framtíðarsamstarf landanna í jarðhitaþjálfun. Að sögn Málfríðar kunni orkumálaráðherrann vel að meta aðstoð Íslands í gegnum árin við þjálfun þrettán sérfræðinga frá Níkaragva og var spenntur fyrir áframhaldandi samstarfi landanna í þessum málum. Á fundinum sagði Málfríður honum frá alþjóðlegu jarðhitaráðstefnunni World Geothermal Congress (WGC) sem haldin er á fimm ára fresti. Hún er fyrirhuguð á Íslandi í apríl. „Ég sagði honum að þar væri gott tækifæri til að fræðast um þróun og nýtingu jarðhita um alla heim og í framhaldinu boðaði hann komu sína á ráðstefnuna,“ segir Málfríður.
Hún hitti einnig Sumaya Castillo umhverfis- og auðlindaráðherra Níkaragva til að ræða um áhrif orkuauðlinda á umhverfið og mikilvægi þess að gæta að því að umhverfisáhrif orkunýtingar verði sem allra minnst. „Í Níkaragva er annar mesti líffræðilegi fjölbreytileiki í heiminum á eftir Amazon regnskóginum og mikið er af vernduðum svæðum í landinu. Heimamenn eru mjög stoltir af þjóðgörðum sínum og einstakri náttúru og dýralífi en innan eins slíks er eldfjallið Masaya þar sem ólgandi kvika sést frá gígbarminum steinsnar frá bílastæðinu,“ segir Málfríður en umhverfisráðherrann bauð Málfríði og fylgdarliði hennar upp að barminum til að berja þetta náttúruundur augum eftir myrkur. „Það var ógleymanleg sýn,“ segir hún.
Í heimsókninni skoðaði hún líka jarðhitavirkjunina Momotombo sem er undir virku eldfjalli með sama nafni. „Þar er yfirvofandi hætta á gjóskuflóði og starfsmennirnir hafa tvær mínútur til að koma sér ofan í neðanjarðarbirgi með vistum og súrefni til tveggja daga. Eftir þann tíma renna birgðirnar út ef ekki verður náð að koma til þeirra björgun og því þarf ekki að spyrja að leikslokum ef það næst ekki innan tveggja daga.,“ segir hún og bætir við að Mariela Arrauz fyrrverandi nemandi skólans í umhverfisfræði hafi leiðsagt henni um svæðið.
Málfríður heimsótti einnig háskólann í Leon þar sem tveir fyrrum nemendur skólans starfa. Þar kynnti hún þjálfunina á Íslandi fyrir rektor skólans og kennurum og ræddi möguleika á frekara samstarfi.
Síðan var ferðinni heitið til Kólumbíu sem hefur ekki áður átt nemendur í Jarðhitaskólanum. Málfríður heimsótti nokkrar stofnanir sem sinna jarðhitakönnunum, umhverfismati og jarðhitavinnslu í Bogotá, Manizales og Medellín og hitti forsvarsmenn þeirra og starfsmenn. „Viðtöl voru tekin við nokkra starfsmenn og fyrsti neminn kemur til landsins í vor. Kólumbía hefur sett sér það markmið að árið 2022 verði 10 prósent af orku landsins frá endurnýjanlegum orkuauðlindum og orkufyrirtækið EPM hafði áætlanir um að bora fimm holur á Nevado del Ruiz jarðhitasvæðinu. Þær áætlanir hafa hins vegar verið settar á hilluna í bili þar sem bilun í stórri vatnsorkuvirkjun olli miklum skemmdum og vatnsflóði og því er áherslan nú á að laga þær skemmdir áður en haldið verður áfram með aðrar áætlanir.“
Síðasti viðkomustaður Málfríðar var Perú sem hefur heldur ekki átt nemendur í Jarðhitaskólanum. Hún segir líklegt að sérfræðingar frá Perú eigi eftir að koma til Íslands í þjálfun hjá Jarðhitaskólanum á næsta ári eða í náinni framtíð. „Perú hefur töluverðan fjölda af jarðhitasvæðum og góða möguleika á nýtingu jarðhita til húshitunar og orkuframleiðslu. Þörfin er einnig mikil og þá sérstaklega í háfjallaþorpum í Andesfjöllunum þar sem um 200 manns deyja árlega úr kulda,“ segir Málfríður.
Um Perú segir Málfríður að helsti tálminn fyrir nýtingu jarðhita þar í landi sé skortur á fjármagni, þekking og þjálfun heimafólks. Í höfuðborginni Lima ræddi Málfríður við forsvarsmenn helstu jarðhitafyrirtækja landsins og kynnti fyrir þeim starfsemi og tilgang Jarðhitaskólans. „Þau tóku mjög vel í þessa aðstoð Íslands að þjálfa sérfræðinga frá Perú og gera fólkinu í landinu kleift að nýta þessa innlendu og umhverfisvænu orkuauðlind sem liggur undir jarðskorpunni,“ segir Málfríður.
Myndbandið sýnir frétt frá sjónvarpsstöð í Níkaragva um fund Málfríðar með orkumálaráðherra landsins.