Hvað er bólusetningabandalagið Gavi?
Gavi, bólusetningabandalagið, er alþjóðleg stofnun með höfuðstöðvar í Genf í Sviss. Bandalagið var stofnsett árið 2000, sem samstarf einkageirans og opinbera geirans á alþjóðavísu, og hefur að markmiði að bólusetja börn gegn hættulegum smitsjúkdómum. Þar má nefna mislinga, mýgulusótt, heilahimnubólgu og mænusótt. Frá stofnun bandalagsins hafa meira en 760 milljón börn verið bólusett á vegum þess og er áætlað að þetta starf hafi forðað meira en 13 milljónum frá dauða og átt mikinn þátt í að helminga barnadauða í 73 þróunarríkjum.
Gavi stuðlar einnig að bættu öryggi í heilbrigðismálum, annars vegar með stuðningi við heilbrigðiskerfi í fátækum löndum og hins vegar með því að fjármagna söfnun varabirgða af bóluefnum gegn ebólu, kóleru, heilahimnubólgu og mýgulusótt. Næstu árin leggur Gavi áherslu á að vernda komandi kynslóð barna og einnig að ná til þeirra barna sem ekki hefur enn náðst að bólusetja. Gavi beitir ýmsum framsæknum aðferðum, bæði þegar kemur að fjármögnun og tæknilausnum, með það fyrir augum að bjarga milljónum mannslífa, berjast gegn farsóttum og aðstoða lönd við að verða sjálfum sér næg í heilbrigðismálum.
Gavi hefur brugðist við yfirstandandi kórónuveirufaraldri á margvíslegan hátt og hefur þegar veitt fjármagn til styrktar heilbrigðiskerfum í samstarfslöndum sínum, sem meðal annars hefur nýst til að vernda framlínufólk, þjálfa heilbrigðisfólk að eiga við sjúkdóminn og kaupa skimunarpróf. Gavi hefur einsett sér að taka þátt í baráttunni gegn kórónaveirunni á heimsvísu og nýta þekkingu sína og reynslu til að flýta fyrir þróun, framleiðslu og dreifingu bóluefnis og tryggja jafnan aðgang allra að því. Á sama tíma verður allt kapp lagt á að draga ekki úr hefðbundnum bólusetningum barna á komandi árum.
Sérstaða Gavi felst í því að bandalagið skapar tengingar á milli þróunarríkja, framlagsríkja, Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Alþjóðabankans, lyfjaiðnaðarins, almannaheillafélaga, Bill & Melinda Gates sjóðsins og ýmissa annarra aðila úr einkageiranum. Gavi hefur í gegnum þessar tengingar átt stóran þátt í að ná fram mikilli lækkun á kostnaðarverði bóluefna til fátækari ríkja með því að skipuleggja bóluefnainnkaup fyrir margar þjóðir í einu með sameiginlegum útboðum.
Gavi skipuleggur starf sitt í fimm ára tímabilum og þegar er hafinn undirbúningur fjármögnunar næsta tímabils, sem hefst 2021 og lýkur 2025. Markmið Gavi er að bólusetja á tímabilinu 300 milljónir barna í um það bil 73 löndum og bjarga með því allt að átta milljónum mannslífa. Gavi áætlar að það kosti um 7,4 milljarða dala. Í gær fór fram fram áheitafundur í London þar sem safna átti fjármagni fyrir komandi tímabil og söfnuðust 8,8 milljarðar Bandaríkjadala. Forsætisráðherra tilkynnti á fundinum um 500 milljóna króna framlag Íslands til annars vegar Gavi og hins vegar til aðgerðarbandalags fjölmargra ríkja, fyrirtækja og stofnana sem hefur það hlutverk að hraða þróun, framleiðslu og dreifingu á bóluefni við COVID-19.
Ísland og Gavi gerðu með sér samning árið 2018 um að flýta fyrir bólusetningum barna í dreifbýli í Malaví með áherslu á samstarfshérað Íslands, Mangochi. Verkefnið er til þriggja ára, en það hófst 2019 og lýkur 2021. Framlag Íslands var ein milljón bandaríkjadala, sem í dag er jafnvirði tæplega 147 milljóna króna.
Nýlega barst beiðni frá Gavi til Íslands um að halda áfram stuðningi við bandalagið á nýju tímabili. Starf Gavi fellur vel að núgildandi stefnu Alþingis um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, en eitt af markmiðum hennar er „bætt grunnheilbrigðisþjónusta og lækkuð tíðni mæðra- og barnadauða (í samræmi við heimsmarkmið nr. 3)“ og bólusetningar barna leggja sitt af mörkum til þess.