Hoppa yfir valmynd
15.07. 2020 Utanríkisráðuneytið

Sex íslensk félagasamtök fá styrk til þróunarsamvinnuverkefna

Ljósmynd frá Malaví: gunnisal - mynd

Utanríkisráðuneytið hefur gefið vilyrði fyrir styrkjum til sex íslenskra félagasamtaka til átta verkefna á sviði þróunarsamvinnu. Öll verkefnin koma til framkvæmda í Afríkuríkjum. Hæstu styrkjunum verður að þessu sinni varið til þriggja langtímaverkefna, tveggja á vegum Rauða krossins á Íslandi og eins á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar. Auk þeirra fá ABC barnahjálp, Aurora velgerðarsjóður, Samband íslenskra kristniboðsfélaga og Stómasamtök Íslands styrki til skammtímaverkefna í Búrkína Fasó, Eþíópíu, Kenía, Sambíu og Síerra Leóne.

Rauði krossinn á Íslandi fær styrk til fjögurra ára vegna áframhaldandi verkefnis í Malaví sem miðar að því að auka viðnámsþrótt nærsamfélaga. Verkefnið miðar að því að stuðla að uppbyggingu og valdeflingu á fimm áherslusviðum: heilbrigði, vatn og hreinlæti, félagslegri aðild og valdeflingu, neyðarvörnum og að lokum uppbyggingu öflugra landsfélags Rauða krossins í Malaví. Einnig hlaut Rauði krossinn á Íslandi styrk til langtíma verkefnis sem snýr að uppbyggingu getu landsfélaga hreyfingarinnar í upplýsinga- og samskiptatækni. Verkefnið nær til landsfélaga Rauða krossins í Gana, Malaví, Síerra Leóne og Suður-Súdan.

Verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar koma til framkvæmdar í Kebribeyah héraði í Sómalíufylki í Eþíópíu og hefst á næsta ári. Um er að ræða framhald verkefnis sem styrkt var á árunum 2018-2020 með áherslu á viðnámsþrótt gegn loftlagsbreytingum og bætt lífviðurværi íbúa í héraðinu.

Af skammtímaverkefnunum eru tvö unnin í Kenía, annars vegar verkefni á vegum ABC barnahjálpar sem snýr að bættri aðstöðu við skóla ABC í Naíróbí og hins vegar verkefni Sambands íslenskra kristniboðsfélaga um styrkingu innviða í framhaldsskólum á vegum samtakanna. Aurora velgerðarsjóður hlýtur nýliðastyrk til verkefnis í Síerra Leóne sem snýr að endurreisn leirkeraverkstæðisins Lettie Stuart Pottery með áherslu á sjálfbæran rekstur verkstæðisins og stöðuga atvinnu nemenda. Einnig hljóta Stómasamtökin á Íslandi styrk vegna verkefnis sem snýr að stómaþegum í Sambíu og felur í sér að auka skilning stómaþega sjálfra, heilbrigðisyfirvalda og heilbrigðisstarfsfólks á því hvaða þjónustu stómaþegar þurfa að fá og geta vænst innan heilbrigðiskerfa.

Íslensk félagasamtök eru mikilvægir samstarfsaðilar í þróunarsamvinnu og samstarf við ráðuneytið hefur aukist undanfarin ár. Fjölbreytt flóra samtaka er til staðar á Íslandi og félagasamtök gegna oft lykilhlutverki í baráttunni fyrir auknum réttindum og bættum aðbúnaði þeirra sem búa við fátækt og hvers kyns mismunun.

Umsóknarfrestir fyrir verkefni á sviði þróunarsamvinnu eru auglýstir árlega. Sjá nánar á vef stjórnarráðsins.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll
3. Heilsa og vellíðan
9. Nýsköpun og uppbygging
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta