Samvinna er lykillinn að farsælum samfélögum
Sjálfbær þróun er þróun sem mætir nútíma þörfum án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á því að mæta þörfum sínum.
Slík þróun snýst um að auka efnahagsleg verðmæti um leið og gæðum náttúrunnar er viðhaldið og mannréttindi efld til langs tíma fyrir alla jarðarbúa.
Sjálfbær þróun er lykillinn að farsælum samfélögum þar sem að allir íbúar njóta mannréttinda, hafa tækifæri til náms, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, fátækt er ekki til staðar, jafnrétti kynjanna ríkir, aðgengi að rafmagni og vatni er almenn og dregið hefur verulega úr mengun. Vesturlönd eru nær þessum markmiðum en miðinnkomuríki og fátækustu ríki heims en þurfa þó að spýta í lófana til þess að uppfylla heimsmarkmiðin árið 2030.
En hvernig förum við að því að ná fram heimsmarkmiðunum í fátækustu ríkjum heims?
Jú með samvinnu og samtakamætti. Samvinna og samtakamáttur er lykillinn af sjálfbærum og farsælum samfélögum. Það er því ekki að ástæðulausu sem að talað er um þróunarsamvinnu en ekki þróunaraðstoð. Þróunarsamvinna snýst nefnilega um samvinnu við samfélögin sem njóta góðs af þróunarsamvinnu og samvinnu þeirra sem veita hana.
Heimsfaraldur COVID-19 hefur svo sannarlega sýnt fram á mikilvægi samvinnu á öllum stigum. Sem samfélag höfum við þurft að vinna saman að því að gæta að sóttvörnum og fylgja eftir reglum yfirvalda. Án samvinnu okkar allra væri Ísland ekki í þeirri stöðu sem það er í dag er varðar árangur í baráttunni gegn sjúkdómnum. Að sama skapi hefur reynt á samvinnu ríkja, alþjóðastofnana, fyrirtækja og félagasamtaka í baráttunni gegn COVID-19 á heimsvísu og í fátækustu ríkjum heims.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun geta ekki orðið að veruleika nema með samvinnu og þess vegna er eitt af markmiðunum helgað samvinnu. Til þess að tryggja að sú afturför sem hefur orðið á framgangi heimsmarkmiðanna í kjölfar COVID-19 verði ekki varanleg er gríðarlega mikilvægt að draga ekki úr fjárframlögum til þróunarsamvinnu og efla enn frekar samvinnu ríkja, stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka og samfélaga í þróunarsamvinnu. Nú þegar að flest ríki sjá fram á efnahagsþrengingar í kjölfar heimsfaraldursins er gríðarlega mikilvægt að draga ekki úr framlögum til þróunarsamvinnu vegna þess að viðkvæmustu samfélögin mega hreinlega ekki við því. Vesturlönd hafa mun meira viðnámsþol en fátækustu ríki heims og munum við ná okkur á strik mun fyrr en þau. Það er á ábyrgð okkar að tryggja að ójöfnuður á milli ríkja aukist ekki og að sá árangur sem náðst hafði í að draga úr þeim ójöfnuði tapist ekki að fullu.
Heimildarþátturinn Stóra myndin: COVID og heimsbyggðin sem sýndur var á RÚV þann 11. febrúar síðastliðinn og er aðgengilegur hér (https://www.un.is/2021/02/stora-myndin-covid-og-heimsbyggdin/) fjallar um félags- og efnahagsleg áhrif COVID-19 á fátækustu ríki heims. Áhrifin hafa haft í för með sér afturför þegar kemur að því að útrýma fátækt, efla réttindi og öryggi kvenna, tryggja menntun barna og eyða hungri svo fátt eitt sé nefnt. Árangurinn af þróunarsamvinnu hefur verið gríðarlegur frá aldamótum. Dregið hefur verulega úr ungbarna- og mæðradauða, menntun stúlkna hefur aukist verulega og aðgengi að hreinu vatni og salernisaðstöðu hefur aukist svo fátt eitt sé nefnt. Árangurinn af þróunarsamvinnu er mun djúpstæðari og meiri en þessi dæmi gefa til kynna og það er mikilvægt að við leggjumst öll á eitt við það að tryggja að árangurinn haldist og aukist enn frekar. Það er okkur öllum til góðs að allir jarðarbúar búi í sjálfbærum og friðsælum samfélögum. Sjálfbær þróun er nefnilega lausnin við öllum stærstu vandamálum heimsins.
Íslensk stjórnvöld eiga hrós skilið fyrir að draga ekki úr framlögum til þróunarsamvinnu í ár og vonum við að svo verði raunin á næstu árum og að enn verði bætt í. Við viljum líka þakka ykkur, almenningi á Íslandi, fyrir allan þann stuðning sem þið hafið veitt til þeirra félagasamtaka sem sinna þróunarsamvinnu og jákvæð viðhorf ykkar til þróunarsamvinnu almennt. Þið gegnið mikilvægu hlutverki í baráttunni fyrir betri heimi og án stuðnings ykkar væru félagasamtökin sem standa að átakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt ekki jafn öflug í sínu starfi og raun ber vitni. Við erum bjartsýn á að stuðningur ykkar og jákvæð viðhorf til þróunarsamvinnu haldi áfram til framtíðar. Takk kærlega fyrir okkur!
Höfundur er framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Greinin er skrifuð í tilefni af fræðsluátakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum allra helstu íslenskra félagasamtaka í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu, í samstarfi við utanríkisráðuneyti.