OECD hvetur ríki til að byggja á íslenskri aðferðafræði í þróunarsamvinnu
Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, lofar aðferðafræði Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu. Á vefgátt OECD sem ætlað er að auka skilvirkni þróunarsamvinnu er fjallað um svokallaða héraðsnálgun Íslands. Þar segir að héruðin sem njóti stuðnings standi sig verulega betur en önnur og tilgreind eru dæmi frá í Malaví og Úganda.
Íslendingar hafa mörg undanfarin ár beitt þeirri aðferðarfræði í samstarfslöndum að styðja við bakið á tilteknum héraðsstjórnum við að uppfylla grunnþjónustu við íbúana, einkum á sviði menntunar og lýðheilsu, en einnig í vatns-, salernis- og hreinlætismálum og jafnréttismálum. Að mati OECD hentar þessi aðferðarfræði vel litlum veitendum eins og Íslandi. Slíkt langtímasamstarf við héraðsstjórnir bæti þjónustu við íbúana, styrki eignarhald heimamanna og getu héraðanna til að auka skilvirkni.
Góður árangur í samstarfshéruðum
Meðal dæma er nefndur árangur samstarfs Íslendinga í Kalangala héraði í Úganda, eyjasamfélögum úti á Viktoríuvatni. Þegar samstarfið hófst árið 2010 var héraðið á landsvísu meðal þeirra lökustu í menntamálum en er nú metið meðal þeirra tuttugu bestu. Í samstarfshéraði Íslands í Malaví, Mangochi-héraði, var heilbrigðisskrifstofa héraðsins talin sú besta í landinu á árinu 2020.
Enn fremur eru rakin dæmi um framfarir í Buikwe-héraði í Úganda. Þar hafi nemendum sem lokið hafa grunnskólaprófi fjölgað úr 40 prósentum árið 2011 upp í 76 prósent árið 2020, tvöfalt fleiri hafi sótt grunnskólanám og verulega hafi dregið úr brottfalli stúlkna. Þá hafi 79 prósent íbúa héraðsins nú aðgang að hreinu drykkjarvatni en einungis 58 prósent árið 2015. Enginn íbúi hafi haft viðunandi salernisaðstöðu fyrir fimm árum en nú sé hlutfallið níu af hverjum tíu. Loks er nefnt að engin kólerutilfelli hafi greinst undanfarið þrjú ár í Buikwe héraði og sömu sögu sé að segja frá Mangochi í Malaví.
„Ísland, sem lítið framlagsríki, miðar að því að hámarka nýtingu takmarkaðs fjármagns og fylgja meginreglum um árangursríka þróunarsamvinnu, til að ná langtíma árangri sem byggist á forgangsröðun heimamanna, bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstigi,” segir á vefgátt OECD.