Aukið samstarf við UNFPA gegn fæðingarfistli í Síerra Leone
Á síðasta ári fóru 129 konur og stúlkur í skurðaðgerð og eftirmeðferð vegna fæðingarfistils í Síerra Leóne fyrir tilstilli stuðnings Íslands við verkefni Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) gegn fistli. Hann er nánast óþekktur í samfélögum á Vesturlöndum en víða í fátækum ríkjum er hann yfirleitt ekki meðhöndlaður og jafnvel óþekkt að lækning sé til. Ísland undirbýr nú að auka samstarf við UNFPA með það að markmiði að útrýma fæðingarfistli í landinu á næstu árum.
„Meginmarkmið verkefnisins er að stuðla að auknum lífsgæðum stúlkna og kvenna með aðgerðum sem draga úr hættu á og lækna fistil,“ segir Ásdís Bjarnadóttir sérfræðingur á alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins. „Fistlinum hefur verið lýst sem örkumli kvenna, einkum ungra kvenna og stúlkna, sem ekki eru líkamlega tilbúnar til að eignast börn, en þær rifna illa með þeim afleiðingum að fistill myndast, til dæmis milli ristils og legganga, og þær geta þá ekki lengur haft stjórn á þvaglátum og/eða hægðum með tilheyrandi ólykt sem leiðir til þess að þær upplifa mikla skömm og víða er þeim útskúfað félagslega.“
Meðal samstarfsaðila er kvennamiðstöðin Aberdeen Women‘s Centre í Freetown þar sem boðið er upp á ókeypis skurðaðgerðir vegna fæðingafistils og endurhæfingu. Þar fengu fyrrnefndar 129 konur og stúlkur meðferð á síðasta ári.
„Í samtölum við starfsfólk Aberdeen miðstöðvarinnar kom fram að sálrænn stuðningur við sjúklingana er ekki síður mikilvægur en líkamleg heilsa. Sjáanlegan mun má greina á konum og stúlkum fyrst við komuna til miðstöðvarinnar og eftir að þær hafa dvalið þar í einhvern tíma. Konurnar og stúlkurnar geta deilt reynslu sinni í öruggu umhverfi og haft stuðning af hver annarri en þær eiga það flestar sameiginlegt að hafa upplifað tvöfaldan harmleik, bæði fætt andvana barn eftir erfiða fæðingu sem olli svo fæðingarfistli en í 90 prósent slíkra fæðinga fæðast börn andvana,“ segir Ásdís.
Barnahjónabönd eru algeng í Síerra Leóne og ótímabærar barneignir bein afleiðing þeirra. Það hefur í för með sér aukna hættu á fæðingarfistli en rúmlega 20 prósent kvenna sem fæða barn árlega í landinu eru yngri en 19 ára.
Nákvæmar tölur um tíðni fæðingarfistils í Síerra Leóne eru ekki til en talið er að um 2.400 konur og stúlkur þjáist af fæðingarfistli þar. Í verkefninu er að sögn Ásdísar beitt heildstæðri nálgun sem felst í því að auk ókeypis skurðaðgerða til að lækna fistilinn er mikil áhersla lögð á vitundarvakningu, líkamlega og andlega endurhæfingu eftir aðgerð, auk valdeflingar og hagnýtrar þjálfunar fyrir konur og stúlkur svo þær megi öðlast virðingu sína á ný og hafi tækifæri til tekjuöflunar eftir útskrift. Jafnframt er markvisst unnið að því að bæta almennt þjónustu við verðandi mæður, gera þjónustu og fræðslu um kyn- og frjósemisheilbrigði aðgengilegri og draga úr kynbundnu ofbeldi sem eru allt mikilvægir þættir í forvörnum gegn fæðingarfistli.
Félagasamtökin Haikal eru annar mikilvægur samstarfsaðili í verkefninu og miðstöð samtakanna er í bænum Bo í suðurhluta landsins. Hlutverk Haikal er fyrst og fremst vitundavakning og fræðsla um fæðingarfistil út í samfélaginu, að finna konur og stúlkur sem þjást af fistli og koma þeim undir læknishendur, veita endurhæfingu eftir aðgerð og sálrænan stuðning sem og hagnýta þjálfun sem nýst getur til tekjuöflunar.
Ísland hefur um árabil stutt alþjóðlegu baráttuna gegn fæðingarfistli sem leidd er af Mannfjöldasjóði Sameinuðu þjóðanna (UNFPA), þar á meðal verkefni stofnunarinnar í Malaví og Síerra Leóne. UNFPA er ein af áherslustofnunum í íslenskri þróunarsamvinnu en megináhersla og hlutverk hennar er að vinna að kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindum, einkum ungmenna, og að veita betra aðgengi að mæðra- og ungbarnavernd, kynfræðslu, aðgengi að getnaðarvörnum og heilbrigðisþjónustu vegna kynsjúkdóma á borð við HIV/ alnæmi og aðstoð við þolendur kynbundins ofbeldis.