Heimsókn Barnaheilla til Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó
Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa staðið fyrir mannúðarverkefni í Suður-Kívu í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó undanfarið ár. Verkefnið miðar að því að vernda börn gegn ofbeldi, misnotkun, útskúfun og vanrækslu, auk þess að vernda börn fyrir því að vera neydd til að ganga til liðs við vígahópa og styðja við þau börn sem hafa þegar verið neydd til þess. Er það meðal annars gert með stuðningi við svokölluð barnvæn svæði.
Í október s.l. fór starfsfólk Barnaheilla – Save the Children á Íslandi til Kinshasa höfuðborgar Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó, þær Guðrún Helga Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Barnaheilla, Kolbrún Pálsdóttir, verkefnastjóri erlendra verkefna og kynningarmála og Þóra Björnsdóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna. Tilgangur ferðarinnar var meðal annars að eiga tæknilegt samtal við starfsfólk sem vinnur að framkvæmd verkefnis Barnaheilla í Suður-Kívu sem og annað starfsfólk Barnaheilla í Kongó sem vinnur að því að koma í veg fyrir og bregðast við kynbundnu ofbeldi. Verkefni Barnaheilla – Save the Children í höfuðborginni voru skoðuð og fékk starfsfólk Barnaheilla innsýn inn í það góða starf sem unnið er þar, auk þess sem starfsfólk Barnaheilla tók þátt í þjálfun á viðbrögðum við kynferðisofbeldi á vegum Barnaheilla – Save the Children í Kongó.
Barnaheill styðja við sex barnvæn svæði í Suður-Kivu, en héraðið er mikið átakasvæði og fjöldi fylgdarlausra barna er þar á vergangi. Barnaverndarsérfræðingarnir Alain Mutula Weka og Sylvie P. Loken hafa yfirumsjón með verkefni Barnaheilla í Suður-Kívu og hittu þau starfsmenn Barnaheilla – Save the Children á Íslandi í Kinshasa þar sem farið var ítarlega yfir starfsemi og áherslur verkefnisins og þann árangur sem hefur náðst á undanförnu ári. Einnig fór fram fræðsla og samtal um nýjar leiðir til þess að vinna með börnum sem koma á barnvænu svæðin.
Barnvæn svæði Barnaheilla eru opin öllum börnum í samfélaginu þar sem þau geta lært og leikið sér í góðu og öruggu umhverfi. Börnin koma úr mismunandi aðstæðum en sum búa með foreldrum sínum í nágrenninu á meðan önnur eru fylgdarlaus og búa í kirkjum eða flóttamannabúðum. Fjölbreytt verkefni fara fram á barnvænum svæðum og hafa börn tækifæri til að taka virkan þátt í starfseminni. Einnig fá foreldrar barnanna fræðslu en til þess að stuðla að réttindum barna er mikilvægt að allt samfélagið taki þátt.
Sylvie segir að það sé krefjandi að breyta hegðunarmynstri sem er innrætt í samfélagið. ,,Í Suður-Kivu er algengt að foreldrar telji líkamlegt ofbeldi bestu uppeldisaðferðina og að hún virki vel. Það er mikil áskorun að fá foreldra til þess að breyta slíku hegðunarmynstri, því það er erfitt að fá þau til þess að hætta einhverju sem þau telja að virki. Einnig er gífurlega algengt vandamál að stúlkur undir 18 ára aldur gifti sig og meira að segja telst eðlilegt í einhverjum samfélögum að 14 ára stúlkur gangi í hjónaband og hætti í skóla.“
,,Það er áskorun fyrir okkur að breyta rótgrónum hefðum samfélagsins vegna þess að þetta er svo djúpt innrætt inn í samfélagið. Það eru engin hangandi plögg sem börn geta bent á og sagt að þau eigi rétt á hinu og þessu. Þetta eru allt óskrifaðar reglur samfélagsins,“ bætir Alain við. ,,Öll þessi litlu skref sem við erum að taka skipta máli. Hægt og rólega, í samvinnu við börn, foreldra og samfélagið erum við að stefna í rétta átt.“
Á skrifstofu Barnaheilla - Save the Children í Suður-Kivu vinna 50 starfsmenn að ólíkum verkefnum. Einnig hefur fjöldi sjálfboðaliða fengið fræðslu frá samtökunum í Suður-Kivu til þess að vinna að því að heimsækja samfélög, banka upp á heimili og tala við börn og foreldra og veita þeim fræðslu um hvernig megi koma í veg fyrir ofbeldi og bregðast við því. Einnig vekja þau athygli á hjálparsímanum 133 sem virkar fyrir landið allt. Hjálparsíminn er á vegum Barnaheilla - Save the Children í Kongó en þar er hægt að tilkynna ofbeldi gegn börnum. Um 600-700 símtöl berast hjálparsímanum í hverjum mánuði.
Starfsfólk Barnaheilla heimsótti fjölda verkefna Barnaheilla – Save the Children í Kongó í kringum höfuðborgina, þar með talið heilsugæslur. ,,Það var virkilega lærdómsríkt að fá að heimsækja heilsugæslur á vegum Save the Children og það flotta starf sem þar er unnið. Við heimsóttum meðal annars neyðarmóttöku fyrir börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi en þar fá börnin mjög gott utanumhald. Þau fá viðeigandi lyf eins og sýklalyf til þess að koma í veg fyrir ýmsar sýkingar. Einnig fá stúlkur neyðarpilluna. Börnin hitta svo sálfræðing í kjölfarið og fá sálfræðiaðstoð og eftirfylgni næstu sex mánuðina. Einnig er lögfræðingur innan handar sem hjálpar börnunum að kæra ofbeldið og fara með málið fyrir dómstól. Þetta er virkilega flott starf sem þarna er unnið,” segir Kolbrún, verkefnastjóri Barnaheilla.