Guðfaðir íslenskrar þróunarsamvinnu - 1. hluti
Opinber alþjóðleg þróunarsamvinna af hálfu Íslands hófst með formlegum hætti fyrir rétt um fimmtíu árum. Af því tilefni verða birt á næstu vikum nokkur sögubrot um aðdraganda og upphaf þeirrar samvinnu. Í fyrsta kaflanum er fjallað um þingsályktunartillögu frá árinu 1964 og Ólaf Björnsson þingmann og hagfræðiprófessor sem var frumkvöðull tillagna um þátttöku Íslands á þessu sviði.
Það verður tæplega á nokkurn hallað þótt fullyrt sé að guðfaðir íslenskrar þróunarsamvinnu sé Ólafur heitinn Björnsson prófessor og þingmaður Sjálfstæðisflokksins en hann tók fyrstur manna upp málefni þróunarlanda á þingi seint á árinu 1964 og skrifaði blaðagreinar um Ísland og aðstoðina við þróunarlöndin, bæði í Vísi og Stúdentablaðið. Hann flutti þingsályktunartillögu, 26. nóvember 1964, þess efnis að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina að láta fara fram athugun á því, með hverju móti Ísland geti tekið virkari þátt í því en nú er, að veita þróunarlöndunum aðstoð til eflingar efnahagslegum framförum. „Hin Norðurlöndin hafa með höndum umfangsmikla starfsemi til hjálpar þróunarlöndunum, og sannarlega er tímabært að við Íslendingar látum eitthvað af hendi rakna í þessu skyni," sagði í greinargerð með ályktuninni.
Og Ólafur bætti við: „Við erum að vísu ekki auðug þjóð, og við höfum í mörg horn að líta við uppbyggingu innanlands, en engu að síður búum við nú við einhver bestu lífskjör, sem þekkjast, og þurfum engu fé að verja til landvarna. Ber okkur því siðferðileg skylda til þess að greiða nokkuð til hjálpar þeim, sem verst eru settir í veröldinni."
Örbirgð eða réttlæti?
Björn Þorsteinsson og Ólafur E. Einarsson skrifa árið 1971 um þróunarmál í tímaritið Réttur og kalla greinaflokkinn „Örbirgð eða réttlæti". Tilefni greinaskrifanna er stofnun títtnefndrar Aðstoðar Íslands við þróunarlöndin eða eins og þeir orða það sjálfir: „Eru þessi lög það fyrsta sem opinberir aðilar samþykkja, um framlög Íslands til þróunarlandanna, en til þessa hefur þróunaraðstoð og fræðsla um ástandið í þriðja heiminum eingöngu hvílt á frjálsu frumkvæði ýmissa félagssamtaka. Er Ísland síðast Norðurlandanna til að ákveða aðstoð hins opinbera við þróunarlöndin."
Í greininni nefna þeir enn fremur þær miklu umræður sem urðu um aðstoð við þróunarlöndin á árinu 1965 - í framhaldi af þingsályktunartillögu Ólafs og Hungurvökum æskufólks - og segja að þær umræður hafi leitt til þess að utanríkisráðherra hafi skipað nefnd til að gera um það tillögur á hvern hátt mætti auka aðstoð Íslands við þróunarlöndin. „Formaður nefndarinnar var Ólafur Björnsson og tók það hálfan áratug fyrir nefndina að leggja endanlegar tillögur sínar fyrir alþingi. Höfðu tillögurnar að vísu um tíma lent á vergangi hjá ríkisstjórninni," segja þeir.
Skilningsleysi stjórnvalda
Millifyrirsögnin „Skilningsleysi stjórnvalda" lýsir því best hvernig Björn og Ólafur telja að stjórnvöld hafi tekið á málefnum þróunarlanda um miðjan sjöunda áratuginn þegar þau mál voru í brennidepli. „Allt frá því að umræður hófust á Íslandi um vandamál þróunarlandanna hafa stjórnvöld sýnt því máli einstakt áhugaleysi og jafnvel litið svo á, að þetta væri sér óviðkomandi og hagkvæmast að leysa það eins og önnur mannúðarmál á Íslandi, með samskotum eða happdrættum, framkvæmdum af fórnfúsum einstaklingum og félögum. Þeir sem sýnt hafa þessu máli áhuga hafa þó ekki verið sammála þessu viðhorfi stjórnvalda og því verið hafður í frammi markviss áróður fyrir þátttöku ríkisins. Það hefur einnig gert stjórnvöldum nokkuð erfitt um við að skjóta sér undan, að Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt aðildarríki sín til að verja sem svarar 1% þjóðartekna árlega til þróunaraðstoðar. ... Ungt fólk í öllum stjórnmálaflokkum og fleiri félagssamtökum hóf undirskriftasöfnun með áskorun á alþingi að samþykkja löggjöf um þróunaraðstoð; framhaldsskólanemar tóku fulltrúa frá stjórnmálaflokkunum til bæna á hungurvökum og legið var í þingmönnum frá öllum flokkum að flytja frumv. um þróunarsjóð. Var slíkt frumvarp flutt á tveim þingum, en hlaut aldrei afgreiðslu. Árangur af þeim tillöguflutningi var þó sá, að nefnd utanríkisráðherra sá sig tilneydda að skila áliti. Þá höfðu ungir menn beitt sér, hver í sínum flokki fyrir samþykkt tillagna á flokksþingum um, að hið opinbera veitti þróunaraðstoð. En hvernig á síðan aðstoð hins opinbera að vera háttað, þegar hún loks sér dagsins ljós?," spyrja þeir Björn og Ólafur.
Í næsta sögubroti lítum við nánar á þingsályktunartillögu Ólafs Björnssonar frá haustinu 1964. -Gsal