Hoppa yfir valmynd
23.05. 2022 Utanríkisráðuneytið

Vilja útrýma fæðingafistli í Malaví gegnum þróunarsamvinnu Íslands

Liviness Inoki gekkst undir skurðaðgerð vegna fæðingafistils á síðasti ári með stuðningi frá Íslandi. - mynd

Íslendingar hafa um árabil stutt verkefni Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) gegn fæðingarfistli víðs vegar í heiminum, meðal annars í Malaví, sem er annað tveggja samstarfsríkja Íslands í alþjóðlegri tvíhliða þróunarsamvinnu. Í dag er alþjóðadagur um útrýmingu á fæðingarfistli þar sem vakin er athygli á einum vanræktasta lýðheilsuvanda samtímans.

Um tvær milljónir kvenna þjást af fæðingarfistli (obstetric fistula) samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna. Í Malaví er talið að um 0,6 prósent kvenna þjáist af fæðingarfistli. Mikill líkamlegur sársauki og skömm fylgir fæðingarfistli, til dæmis þegar hann myndast milli ristils og legganga, með þeim afleiðingum að konur hafa ekki lengur stjórn á þvaglátum og/eða hægðum með tilheyrandi ólykt sem leiðir til félagslegrar útskúfunar.

Saga Liviness Inoki

Liviness Inoki er þrítug, þriggja barna móðir sem býr í afskekktu þorpi í Mangochi héraði í Malaví. Hún fékk fæðingarfistil eftir að hafa gengið í gegnum barnsfæðingu með þriðja barn sitt án þess að fá viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Það hafði í kjölfarið alvarlegar afleiðingar fyrir hana, bæði andlega og líkamlega. „Ég varð félagslega útskúfuð úr samfélaginu um tveggja ára skeið, enginn vildi vera í kringum mig út af lyktinni. Það var erfitt að finna vinnu og það hafði gríðarleg fjárhagsleg áhrif á mig og fjölskylda,“, segir Liviness.

Hún hafði lengi reynt að leita sér aðstoðar en án árangurs. Hún var ítrekað gerð afturreka og henni sagt að aðgerðir væru ekki framkvæmdar í Malaví. En dag einn hitti Liviness heilbrigðisfulltrúa nálægt heimili sínu sem sagði henni frá því að núna gætu konur eins og hún, sem þjást af fæðingarfistli, sótt þjónustu við héraðssjúkrahúsið í Mangochi bæ. Þar er stefnt að reglubundum aðgerðum sem verða því aðgengilegar konum í heimabyggð.

„Aðgerðin breytti lífi mínu til hins betra. Ég get núna séð fyrir fjölskyldu minni og verið virkur þátttakandi í nærsamfélagi mínu,“ segir Liviness sem fékk loksins þá þjónustu sem hún þarfnaðist. Hún gekkst undir skurðaðgerð sér að kostnaðurlausu til að laga fæðingarfistilinn á héraðssjúkrahúsinu í Mangochi, með stuðningi frá Íslandi og Mannfjöldasjóði Sameinuðu þjóðanna (UNFPA).

Ótímabærar þunganir unglingsstúlkna

Fæðingarfistill er oftast afleiðing af ótímabærum barnsburði unglingsstúlkna sem ekki hafa náð nægilegum líkamlegum þroska til að fæða barn þar sem þær eru enn að þroskast sjálfar líkamlega og andlega. Eins og í tilfelli Liviness myndast fæðingafistill þegar viðeigandi heilbrigðisþjónusta í kringum barnsburð og fæðingu er ekki til staðar, inngrip og gæði fæðingarþjónustunnar af skornum skammti eða koma til of seint í fæðingarferlinu til að koma í veg fyrir að fistillinn myndist.

Nýlega fóru tveir starfsmenn sendiráðs Íslands í Lilongwe, þær Uchizi Chihana og Ragnheiður Matthíasdóttir, í vettvangsheimsókn til Mangochi héraðs, samstafshéraðs Íslands í þróunarsamvinnu til síðustu þrjátíu ára, til kynna sér nánar starfsemi Íslands í héraðinu meðal annars þann stuðning sem Ísland veitir í baráttunni gegn fæðingafistli með því að hitta Liviness.

„Það var einstaklega fróðlegt að fá beina innsýn inn í stuðning Íslands í baráttunni að binda enda á fæðingarfistil í Mangochi héraði með því að tala beint við Liviness og fræðast um líf hennar og þær áskoranir sem hún þurfti að takast á við,“ segir Ragnheiður.

Á síðasta ári voru framkvæmdar 55 aðgerðir á konum með fæðingarfistil með stuðningi frá Íslandi. „Með nýrri skurðstofu sem verður opnuð bráðlega við héraðssjúkrahúsið verður hægt að veita konum eins og Liviness, sem þjást af fæðingarfisfistli, enn betri þjónustu,“ segir Uchizi Chiana.

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta