Endurbætur á sex grunnskólum í Namayingo
Ný og endurbætt aðstaða við sex grunnskóla í Namayingo héraði í Úganda var tekin í notkun með viðhöfn á dögunum. Þróunarsamvinna Íslands og Úganda byggist sem kunnugt er á samstarfi við stjórnvöld og héraðsstjórnir tveggja fiskimannasamfélaga við Viktoríuvatn, Buikwe og Namayingo, og felur í sér umbætur í grunnþjónustu og lífsgæðum, meðal annars á sviði menntunar.
Undanfarin misseri hefur verið unnið að margvíslegri uppbyggingu í menntamálum sex grunnskóla sem héraðsstjórnin taldi úrbætur mikilvægastar. Um er að ræða bæði nýbyggingar og endurbætur á skólastofum, stjórnunarhúsnæði, kennarahúsum, skólaeldhúsa og salernum fyrir bæði drengi og stúlkur, auk húsbúnaðar fyrir nemendur og kennara. Einnig voru við athöfnina afhent sex vélhjól fyrir skrifstofu héraðsins í vatns-, salernis og hreinlætismálum.
Margt ráðamanna kom saman í Namayingo af þessu tilefni, meðal annars fulltrúar tveggja ráðuneyta, ráðuneyta sveitastjórna og mennta- og íþróttamála, fulltrúar héraðsstjórnar og þingmenn, auk annarra gesta. Finnbogi Rútur Arnarson verkefnastjóri við sendiráð Íslands í Kampala var fulltrúi Íslands.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru lögð til grundvallar verkefnum Íslands í Úganda ásamt markmiðum stjórnvalda í Úganda sem nefnd eru við Vision 2040 eða framtíðarsýn árið 2040. Sérstaklega er horft til úrbóta í menntamálum, vatns-, salernis- og hreinlætismálum (WASH), eflingar héraðsstjórnunarstigsins, mannréttinda, jafnréttis kynjanna og umhverfislegrar sjálfbærni.