Hoppa yfir valmynd
18.08. 2022 Utanríkisráðuneytið

Kornfarmur frá Úkraínu á leið til sveltandi íbúa Eþíópíu

Fyrsti kornfarmurinn frá Úkraínu á vegum Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, frá innrás Rússa í febrúar, er á leiðinni til Afríku. Flutningaskip með korninu lét úr höfn í Yuzhny við Svartahaf á þriðjudag. Yfirvofandi hungursneyð ógnar sem kunnugt er lífi ríflega 20 milljóna íbúa á horni Afríku.

Talsmenn WFP segja þetta mikilvægan áfanga í viðleitni til að koma bráðnauðsynlegu úkraínsku korni út úr stríðshrjáðu landinu og inn á heimsmarkað til að ná til fólks sem orðið hefur verst úti í matvælakreppunni. „Að opna hafnirnar í Svartahafi er það mikilvægasta sem við getum gert núna til að hjálpa hungruðum í heiminum,“ segir David Beasley framkvæmdastjóri WFP.

Kornfarmurinn um borð í skipinu Brave Commander, 23 þúsund tonn, kemur til með að verða nýttur í suðurhluta Eþíópíu þar sem WFP freistar þess að styðja við hálfa aðra milljón einstaklinga sem berjast við hungurvofuna vegna langvinnra þurrka.

Á heimsvísu standa nú 345 milljónir manna í meira en 80 löndum frammi fyrir bráðu fæðuóöryggi en allt að 50 milljónir manna í 45 löndum eiga á hættu að verða ýtt út í hungursneyð án mannúðarstuðnings. Hungurkreppan sem nú ríkir er drifin áfram af nokkrum þáttum, þar á meðal stríðsátökum, loftslagsáhrifum og COVID-19 heimsfaraldrinum. Stríðið í Úkraínu bætir gráu ofan á svart en frá landinu voru flutt út allt að sex milljónir tonna af korni á mánuði áður en átökin hófust í febrúar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur
16. Friður og réttlæti
13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta