Hoppa yfir valmynd
23.08. 2022 Utanríkisráðuneytið

Grunnskólabörn deila skólamáltíðum með yngri systkinum

Ljósmynd: Save the Children - mynd

Foreldrar grunnskólabarna í Karamoja héraði í norðausturhluta Úganda hafa gripið til þess neyðarúrræðis að senda börnin í skóla með yngri systkini þeirra, þau yngstu á bakinu. Mikill matarskortur er í héraðinu og oft er eina vonin um mat fyrir yngstu börnin fólgin í því að fá hluta af skólamáltíð eldri bræðra eða systra.

Á myndinni er Natalina, tíu ára, sem fer í skólann á hverjum morgni með tvær systur sínar, Maritu og Önnu, en sú yngri er tveggja ára. Í skólanum fær Natalina disk af maísgraut (posho) sem hún deilir með systrum sínum.

Alþjóðasamtökin Save the Children, Barnaheill, segja að fjórir af hverjum tíu íbúum Karamoja héraðs búi við sult eða um hálf milljón einstaklinga. Héraðið hefur um langt árabil verið eitt það snauðasta í landinu en það á landamæri að Kenía og Suður-Súdan. Í Karamoja hafa vopnuð glæpagengi sett mark sitt á mannlífið í áraraðir en á síðustu árum hafa öfgar í veðurfari og sjúkdómar einnig gert lífsbaráttuna erfiðari. Skriðuföll og flóð einkenndu um tíma ástandið í héraðinu á síðasta ári en nú er langvarandi þurrkatíð – á hefðbundnu regntímabili – með tilheyrandi horfelli búpenings, uppskerubresti og vatnsskorti.

Save the Children segja að tæplega 92 þúsund börn og tæplega 10 þúsund barnshafandi konur þjáist af bráðri vannæringu og þurfi taflarlausa hjálp.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta