Hoppa yfir valmynd
24.08. 2022 Utanríkisráðuneytið

UNICEF ítrekar ákall um tafarlaust vopnahlé í Úkraínu

Ljósmynd: UNICEF - mynd

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, ítrekar ákall sitt um tafaralaust vopnahlé í Úkraínu, að öll börn hljóti þá vernd sem þau eiga rétt á og hætt verði tafarlaust að beita sprengjuvopnum í íbúðabyggðum og ráðast á opinberar byggingar og innviði. Eins og sagt var frá í Heimsljósi fyrr í vikunni hafa tæplega eitt þúsund börn látist eða særst í átökum á þeim sex mánuðum sem liðnir eru frá því innrás Rússa hófst.

„Þessar tölur eru aðeins þær sem Sameinuðu þjóðirnar hafa náð að staðfesta. Við teljum að þær séu i raun mun hærri. Það er sprengjuregn sem kostar flest börn lífið. Þessi stríðsvopn gera ekki greinarmun á hermönnum og almennum borgurum, sérstaklega þegar þeim er varpað á íbúðabyggðir- eins og raunin hefur verið í Úkraínu, í Mariupol, Luhansk, Kremenchuk og Vinnytsia,” segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF í yfirlýsingu.

„Enn og aftur sjáum við, líkt og í öllum öðrum stríðum, hvernig skeytingarlausar ákvarðanir fullorðinna setja börn í lífshættu. Það er engin leið að heyja stríð af þessu tagi án þess að skaða börn. Á sama tíma má ekki gleyma þeim börnum sem komist hafa lífs af en hafa séð og upplifað hræðilega hluti sem munu skilja eftir sálrænt ör um ókomna tíð. Eitthvað sem ekkert barn ætti að þurfa að ganga í gegnum,“ segir Russell. 

Hún bendir á að eftir viku ætti skólaárið í Úkraínu að hefjast. 

„Skólakerfi Úkraínu er í molum vegna þessara átaka og vegna þess hvernig skólar hafa verið notaðir sem skotmörk þora foreldrar og forráðamenn ekki að senda börnin sín í skóla. Við áætlum að einn af hverjum tíu skólum hafi skemmst eða verið eyðilagðir á þessu hálfa ári. Öll börn þurfa skóla og menntun, líka þau sem lifa í neyðarástandi. Börnin í Úkraínu og þau sem flúið hafa eru engin undantekning þar á.“ 

Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi 

UNICEF hefur verið að störfum í Úkraínu frá upphafi stríðs og í mörg ár þar áður við að tryggja réttindi barna og velferð. Ef þú vilt leggja þitt af mörkum til að tryggja áframhald á þau mikilvægu verkefni UNICEF vegna stríðsins í Úkraínu er hægt að styðja neyðarsöfnunina HÉR.  

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta