Hoppa yfir valmynd
30.08. 2022 Utanríkisráðuneytið

Grunnskóli afhentur skólayfirvöldum í Namayingo

Fulltrúi sendiráðs Íslands í Kampala afhenti nýverið Bukewa grunnskólann til skólayfirvalda í Namayingo héraði en endurbætur á skólum í héraðinu eru hluti af þróunarverkefni með héraðsyfirvöldum sem hófst á síðasta ári. Verkefnin eru fyrst og fremst á tveimur sviðum, í menntamálum og stuðningi við vatns,- salernis- og hreinlætismál. Einnig er veittur stuðningur við að efla stjórnsýslu héraðsins á fyrrnefndum sviðum.

Í verkinu í Bukewa fólst endurnýjun og endurbætur á innviðum og aðstöðu skólans. Byggðar voru sjö kennslustofur, fjögur starfsmannahús, eldhús og stjórnunarbygging. Eldri kennslustofur og starfsmannahús voru einnig endurnýjuð, skólinn girtur af og leikvöllurinn jafnaður. Þá var bætt við salernum fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Í skólanum eru hátt í 1100 nemendur. Verkið hófst í ársbyrjun á þessu ári, lauk í júlí og skólinn var afhentur 17. ágúst. Samningsupphæðin var tæplega 500 þúsund Bandaríkjadalir eða tæpar 70 milljónir króna.

Sendiráð Íslands í Kampala sá um fjárframlög og eftirfylgni með verkinu fyrir Íslands hönd. Bukewa grunnskólinn er fimmti skólinn sem Ísland hefur kostað og afhent héraðinu en einn skóli í viðbót verður afhentur í september.

Markmiðið er að bæta gæði náms en auk innviða er stutt við kaup á búnaði, námsbókum og þjálfun kennara í öllum sex skólum sem verkefnið nær til. Það felur einnig í sér aðgerðir sem miða að því að bæta aðgengi að heilnæmu vatni og auka hreinlæti. Í því felast meðal annars framkvæmdir við vatnsveitur og bygging salerna. Markmiðið er að auka lífsgæði og draga úr sjúkdómum sem tengjast vatni.

Valdefling kvenna er einnig áhersluþáttur og gerð er krafa um að konur fái tækifæri til að starfa við byggingaframkvæmdir. Það hefur tekist vonum framar og konur eru við margvísleg störf sem þær höfðu takmarkaðan aðgang að áður.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll
3. Heilsa og vellíðan
6. Hreint vatn og hreint
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta