Hoppa yfir valmynd
19.09. 2022 Utanríkisráðuneytið

CERF úthlutun til vanfjármagnaðrar mannúðaraðstoðar

Ljósmynd frá Jemen: OCHA/G.Clarke - mynd

Neyðarsjóður Sameinuðu þjóðanna, CERF, lagði fram á dögunum hundrað milljónir bandarískra dala til að styrkja vanfjármagnaðar mannúðaraðgerðir í ellefu löndum Afríku, Asíu, Suður-Ameríku og Miðausturlöndum. Í þessum ríkjum er lífi fólks og lífsviðurværi ógnað af stríðsátökum, loftslagsbreytingum, hungri og nauðungarflutningum. Um er að ræða rúmlega 200 milljónir manna sem að mati sjóðsins búa við gífurlega örbirgð.

Að sögn Martin Griffiths mannúðarstjóra Sameinuðu þjóðanna draga milljónir fjölskyldna fram lífið án lífsbjargandi stuðnings, einkum á svæðum þar sem bágindin fá litla athygli á alþjóðavettvangi. Fjármögnun frá neyðarsjóð CERF er hugsuð til þess að fylla skarð vanfjármagnaðrar mannúðaraðstoðar og Jemen fær að þessu sinni hæsta framlagið, 20 milljónir Bandaríkjadala.

Önnur lönd sem fá stuðning eru Suður-Súdan, Mjanmar, Nígería, Bangladess, Úganda, Venesúela, Malí, Kamerún, Mósambík og Alsír.

„Milljónir manna verða fyrir fordæmalausum erfiðleikum í átökum, þurrkum, flóðum og öðru neyðarástandi í mannúðarmálum þar sem umfangið hefur farið gríðarlega fram úr þeim úrræðum sem við höfum yfir að ráða. Þessi CERF úthlutun mun taka á þeim vanda," segir Griffiths. "Ég þakka framlagsríkjum sem þegar hafa heitið 502 milljónum dala í CERF á þessu ári og hvet þá til að halda áfram að einbeita sér að þessum vanfjármögnuðu kreppum. Viðvarandi stuðningur þýðir að mannúðarsamtök geta náð til fleiri og bjargað fleiri mannslífum."

Með þessari fjármögnun hefur CERF úthlutað 250 milljónum dala það sem af er ári. CERF er ein af fjórum áherslustofnunum og sjóðum Íslands í mannúðaraðstoð.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
16. Friður og réttlæti
3. Heilsa og vellíðan
2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta