Hoppa yfir valmynd
22.09. 2022 Utanríkisráðuneytið

Úganda: Þakklæti heimamanna fyrir umbætur í menntun

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Sendiráði Íslands í Kampala barst á dögunum meðfylgjandi myndband frá Ssebaggala, biskupi Mukono biskupsdæmisins í Úganda. Hann vildi með myndbandinu koma á framfæri þakklæti fyrir menntaverkefni sem unnið hefur verið að í héraðinu með stuðningi frá Íslandi. Verkefnið beinist að endurnýjun og endurbótum á innviðum og aðstöðu í skólum í Buikwe héraði með það að leiðarljósi að auka gæði kennslu og velferð nemenda og starfsfólks.

Menntaverkefnið er hluti af byggðaþróunarverkefni Íslands í Buikwe um bætta grunnþjónustu héraðsstjórnarinnar við efnalítil fiskiþorp við strendur Viktoríuvatns. Í skólum héraðsins hafa verið byggðar nýjar kennslustofur, starfsmannahús, eldhús og stjórnunarbyggingar, auk þess sem salernisaðstæður hafa verið bættar fyrir nemendur og starfsfólk.

  

Í myndbandinu koma margir fram til að tjá sig um breytingarnar í skólunum. Yfirkennari eins skólans tjáir sig um framfarir sem orðið hafa í þeim skóla vegna stuðnings frá Íslandi. Áður en framkvæmdir hófust á skólanum voru þar 700 nemendur en í dag eru 1600 nemendur við skólann. Einnig er nú aðgengi fyrir hendi að skólastofum með nægilegt pláss fyrir nemendur og bækur, bókahillur og skólabekkir til staðar.

Musaasizi Kizito Julius, menntamálafulltrúi héraðsins, talar um mikilvægi góðs aðgengis að frambærilegum skólum til að betrumbæta menntun barnanna. Fyrir framkvæmdirnar voru mikil þrengsli og yfirleitt um þrír bekkir saman í einni skólastofu. Hver bekkur þurfti að snúa í ákveðna átt til að skilja sig frá hinum bekkjunum.

Í lokin þakkar Ssebaggala biskup íslenska ríkinu fyrir verkefnið, með von um frekara samstarf af hálfu Íslands í héraðinu tengda menntun barna.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta