Hoppa yfir valmynd
26.09. 2022 Utanríkisráðuneytið

Sendinefnd frá Síerra Leone heimsækir Ísland í tengslum við þróunarsamvinnu

Sendinefndin ásamt fulltrúum Hafrannsóknarstofnunar og Sjávarútvegsskóla GRÓ - mynd

Sendinefnd frá sjávarútvegsráðuneyti Síerra Leóne var í heimsókn á Íslandi í síðustu viku í boði utanríkisráðuneytisins í tengslum við þróunarsamvinnu landanna. Fyrir nefndinni fór Emma Josephine Kowa, sjávarútvegsráðherra, en sendinefndin átti fundi með fulltrúum ráðuneytisins og kynnti sér starfsemi helstu stofnana á sviði sjávarútvegs – Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu, Sjávarútvegsskóla GRÓ og Matís.

Á dagskránni var einnig heimsókn í matvælaráðuneytið og vettvangsferð um Reykjanes þar sem sendinefndin fékk meðal annars innsýn í sögu íslensks sjávarútvegs, fylgdist með eftirlitsflugi dróna á vegum Fiskistofu og heimsótti frystihús og fyrirtæki.

Þetta er fyrsta heimsókn sendinefndar frá Síerra Leóne til Íslands. Heimsóknin er hluti af undirbúningi fyrir nýtt verkefni á sviði fiskimála og bláa hagkerfisins. Gert er ráð fyrir að slíkt verkefni geti orðið veigamikill þáttur í þróunarsamvinnu landanna, með sterkri aðkomu íslenskra sérfræðinga og stofnana á því sviði. Verkefnið mun miða að því að styðja stjórnvöld í Síerra Leóne í takti við áherslur þeirra í málaflokknum og efla þeirra eigin fiskveiðistjórnunar- og eftirlitskerfi ásamt því að bæta aðstæður við meðferð afla í fiskiþorpum.  

„Ég get sagt með fullri vissu að Síerra Leóne bíður þess með óþreyju að komið verði á fót sendiráði Íslands í höfuðborg okkar, Freetown. Það mun dýpka þau tengsl sem fyrir eru og áframhaldandi samstarf milli landanna,“ sagði Emma Josephine Kowa sjávarútvegsráðherra á fundi með Martin Eyjólfssyni ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu.

Samstarf Íslands og Síerra Leóne í þróunarsamvinnu hófst árið 2018 með þátttöku í svæðaverkefni Alþjóðabankans í fiskimálum, með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda og bæta lífsviðurværi fólks í fátækum fiskimannasamfélögum á heildstæðan hátt. Ísland hefur einnig stutt við þjálfun og uppbyggingu á getu ráðuneyta og stofnana fyrir skilvirka og sjálfbæra fiskveiðistjórnun í gegnum árin í samstarfi við Sjávarútvegsskóla GRÓ og hafa tólf sérfræðingar frá Síerra Leóne útskrifast frá skólanum.

Síerra Leóne er nýtt tvíhliða samstarfsland Íslands í þróunarsamvinnu og þar er unnið að opnun sendiráðs sem mun fyrst og fremst sinna þróunarsamvinnu. Landið er meðal þeirra fátækustu í heimi og samkvæmt nýjasta lífskjaralista Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna, UNDP, er Síerra Leóne í tíunda neðsta sæti þjóða heims.

  • Sendinefndin í vettvagnsferð á Reykjanesi - mynd
  • Sendinefndin eftir fund með ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

14. Líf í vatni
2. Ekkert hungur
3. Heilsa og vellíðan
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta