Hoppa yfir valmynd
06.10. 2022 Utanríkisráðuneytið

Skálmöldin í Mósambík hrakið milljón íbúa á flótta

Ljósmynd: UNHCR/Martim Gray Pereira - mynd

Í þessari viku eru fimm ár liðin frá því ofbeldishrina hófst í Cabo Delgado-héraði í norðurhluta Mósambík. Á þeim tíma hefur um ein milljóna manna neyðst til að flýja heimili sín. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, krefst þess að ofbeldinu verði hætt og stofnunin hvetur alþjóðasamfélagið til að veita varanlegan stuðning við að draga úr þjáningum íbúa á hrakhólum.

Enn er mikið um átök á þessu svæði og UNHCR segir í frétt að mikið ofbeldi og upplausn hafi mjög slæm áhrif á líf almennra borgara. „Fólk hefur orðið vitni að því að ástvinir þeirra hafa verið drepnir, hálshöggnir og þeim nauðgað og hús þeirra og aðrir innviðir brenndir til grunna. Einnig hafa karlar og drengir verið skráðir nauðugir í vopnaða hópa. Lífsgæði hafa tapast og skólum lokað ásamt því að aðgengi að nauðsynjum, eins og matvælum og heilbrigðisþjónustu, hefur verið takmarkað. Margir hafa orðið fyrir áfalli eftir að hafa margsinnis neyðst til að flytja til að bjarga lífi sínu,“ segir í fréttinni.

Á fimm árum hefur ástand mannúðarmála í Cabo Delgado haldið áfram að versna og átökin hafa nú borist inn í nágrannahéraðið Nampula þar sem fjórar árásir vopnaðra hópa voru gerðar í september.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna bregst stöðugt við þörfum þeirra íbúa í Cabo Delgado-, Nampula- og Niassa-héruðum sem eru á vergangi með mannúðaraðstoð og vernd. „Við veitum skjól og húsbúnað, aðstoðum þá sem þjást af kynbundnu ofbeldi með löglegum, læknisfræðilegum og sálrænum stuðningi og styðjum fólk sem hefur flutt úr landi til að afla sér lögformlegra gagna. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna styður einnig við fólk í öðrum áhættuhópum, meðal annars börn, fatlað fólk og aðraða." 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta