Hoppa yfir valmynd
12.10. 2022 Utanríkisráðuneytið

Margt breyst til hins betra í lífi stúlkna

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Í gær var fagnað tíu ára afmæli alþjóðadags stúlkubarna. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, notaði tilefnið með því að líta um öxl og draga fram breytingar á heimi stúlkna síðasta áratuginn.

„Þegar gögnin eru skoðuð má sjá að líf stúlkna hefur um margt breyst til hins betra á þessu tímabili, sem gefur okkur öllum von um að hægt sé að knýja á um breytingar. En margt er óunnið enn og aðgerða er þörf til að gera betur og hraða umbreytingum til hins betra fyrir allar stúlkur. Skoðum sex dæmi um það sem breyst hefur á þessum tíu árum.“

1. Fleiri stúlkur eru nú að ljúka framhaldsnámi en fyrir áratug.

Að tryggja framhaldsmenntun stúlkna er einhver verðmætasta fjárfesting sem ríki geta farið í – fyrir stúlkurnar sjálfar og samfélögin. Stúlkur sem ljúka framhaldsnámi eru síður líklegar til að vera gefnar í barnahjónabönd, verða barnshafandi sem unglingar auk þess sem tekjumöguleikar þeirra á lífstíðinni stórbatna. Aukið aðgengi stúlkna að menntun bætir mæðravernd og dregur úr barnadauða. Á árunum 2012 til 2020 jókst hlutfall stúlkna sem lauk því sem skilgreina mætti sem unglingadeildarnámi (lower secondary school) úr 69% í 77% á meðan hlutfall framhaldsmenntunar stúlkna (upper secondary school) fór úr 49% í 59%.

Þó þessi þróun sé vissulega jákvæð má sjá að þetta þýðir að ein af hverjum fimm stúlkum á heimsvísu er ekki að ljúka unglingadeildarnámi og nær fjórar af hverjum tíu stúlkum ljúka ekki námsstiginu þar fyrir ofan. Þessi hlutföll eru auðvitað misjöfn milli heimshluta og svæða og víða mun verri en annars staðar, til að mynda í Austur- og suðurhluta Afríku.

2. Færri unglingsstúlkur á heimsvísu eru að eignast börn

Barneignir á unglingsaldri hafa margvísleg neikvæð áhrif á líf, heilsu og velferð stúlkna, barna þeirra og samfélaga í heild. Á heimsvísu er helsta dánarorsök stúlkna á aldrinum 15-19 ára tengdar vandkvæðum á meðgöngu og í fæðingum.

Á heimsvísu hefur fæðingarhlutfall hjá stúlkum 15-19 ára lækkað úr 51 fæðingu per 1000 stúlkur í 42 fæðingar á hverja þúsund stúlkur. Og þó jákvæð þróun í þessa veru hafi einnig mælst meðal minna þróaðra ríkja þá er fæðingatíðni unglingsstúlkna þar nær tvöfalt hærri, um 94 fæðingar á hverjar þúsund stúlkur.

3. Aðgengi stúlkna að getnaðarvörnum aukist

Hjá mörgum stúlkum eru barneignir hvorki skipulagðar né velkomnar. Barneignum stúlkna, sérstaklega þeirra sem eiga sér stað utan hjónabands, getur fylgt smán og félagsleg einangrun auk þess sem líkur á að þær flosni úr námi eða verði þvingaðar í hjónaband aukast. Stúlkur glíma hins vegar víða við verulega skert aðgengi að getnaðarvörnum, smánun, skort á aðgengi að góðum upplýsingum og rétti til að taka eigin ákvarðanir.

Á heimsvísu hefur þróun réttinda stúlkna í þessa veru verið hæg og aðgengi einungis aukist um fimm prósentustig, úr 55% í 60%, frá 2012. Það þýðir að 4 af hverjum 10 stúlkum á aldrinum 15-19 ára, sem vilja ekki verða óléttar, hafa ekki aðgengi að nútímalegum aðferðum til þess. Í Suður-Asíu, Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku og Afríku neðan Sahara eru það innan við helmingur stúlkna í dag.

4. Hlutfall nýrra HIV smita hjá 15-19 ára stúlkum hefur lækkað um 33%

Helsti áhrifaþátturinn í HIV-faraldrinum er margvísleg kynbundið ójafnrétti, meðal annars barnahjónabönd, kynbundið ofbeldi, skortur á aðgengi að þjónustu, upplýsingum og skortur á sjálfræði. Á heimsvísu hefur nýjum HIV-smitum meðal unglingsstúlkna fækkað um 33% síðastliðinn áratug. Úr 180 þúsund í 60 þúsund. En þrátt fyrir það þá eru þrjú af hverjum fjórum ný smit í aldurshópnum 15-19 ára stúlkur.

 5. Barnahjónaböndum hefur fækkað

Barnahjónabönd ræna stúlkur barnæskunni og stjórn yfir eigin lífi. Síðastliðinn áratug hefur hlutfall kvenna sem gefnar voru í hjónaband sem börn lækkað úr 23% í 19%.
Mestur árangur hefur náðst í Suður-Asíu þar sem líkurnar á að stúlkur endi í barnahjónabandi hefur hrapað úr 46% í 28%. Milljónir stúlkna um allan heim eru þó enn í áhættuhópi.

6. Kynfæralimlestingum hefur fækkað

Þessi skelfilega athöfn brýtur gegn réttindum stúlkna, ógnar heilsu þeirra og velferð og styrkir ríkjandi kynjamisrétti í samfélögum. Jákvæðar fréttir eru að í því 31 ríki sem slíkar limlestingar eru algengastar hefur hlutfall stúlkna á aldrinum 15-19 ára sem neyddar eru til að gangast undir þær lækkað úr 41% í 34%. Þessi þróun er þó ekki nærri því nógu hröð til að teljast ásættanleg miðað við sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um að útrýma kynfæralimlestingum stúlkna fyrir árið 2030.

Árangur hefur náðst en nú þarf að gefa í

Tölfræðin sýnir okkur að það er hægt að ná árangri og í mörgu tilliti sé líf stúlkna víða betra í dag en fyrir áratug síðan. En tölurnar sýna okkur líka að nú þurfi að gefa í og hraða umbreytingum til hins betra. Í núverandi ástandi loftslagsbreytinga, stríðsátaka, eftirkasta heimsfaraldurs COVID-19 þar að fjárfesta auka fjárfestingu í menntun, heilbrigðisþjónustu og vernd stúlkna til að hjálpa þeim að lifa og dafna.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur sett á laggirnar nýtt verkefni sem ber heitið „ADOLESCENT GIRLS PROGRAMME STRATEGY“ þar sem nánar er útlistað hvernig ætti að hraða þessum breytingum á næstu árum.

En þessum breytingum þarf að fylgja skuldbinding og fjárfesting í rannsóknir, öflun og greiningu á gögnum fyrir börn og ungmenni. Sérstaklega í þeim hópum sem vanalega eru jaðarsettir í tiltækum kynjagögnum. Hjá LGBTIQ+ og börnum á aldrinum 10-14 ára, og á sviðum þar sem gögn eru takmörkuð, eins og kynjahlutverk, andlega líðan o.s.fv.  Góð gögn sem þessi eru nauðsynleg til að keyra áfram upplýsta stefnumótun og ákvarðanatöku og þrýsting á stjórnvöld um allan heim að forgangsraða í þágu stúlkna.

Stúlkur eru tilbúnar í annan áratug af aðgerðum. Við verðum að standa með þeim.

Greinin á vef UNICEF

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta