Hoppa yfir valmynd
17.10. 2022 Utanríkisráðuneytið

Börn líða mest fyrir efnahagskreppuna í kjölfar átakanna í Úkraínu

Ljósmynd: UNICEF/Babajanyan - mynd

Vaxandi verðbólga og átökin í Úkraínu hafa leitt til 19 prósenta aukningar á fátækt barna í austanverðri Evrópu og Mið-Asíu samkvæmt nýrri greiningu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Greiningin var birt í morgun á alþjóðlegum degi um útrýmingu fátæktar. Varað er við því að brottfall barna úr skólum aukist til muna og jafnframt að ungbarnadauði aukist.

Greiningin byggir á gögnum frá 22 löndum í þessum heimshluta. Hún sýnir að börn bera þyngstu byrðarnar af efnahagskreppunni í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu í lok febrúar. Þótt hlutfall barna af mannfjölda sé rétt um 25 prósent fjölgar börnum í hópi fátækra sem nemur um 40 prósentum.

Börn í Rússlandi verða verst úti í efnahagskreppunni. Um 2,8 milljónir rússneskra barna búa nú á heimilum undir fátæktarmörkum eða þrjú af hverjum fjórum börnum sem greiningin náði til. Í Úkraínu hefur börnum sem búa við fátækt fjölgað um hálfa milljón og í Rúmeníu fjölgar fátækum börnum um 110 þúsund.

Að mati UNICEF gæti þessi þróun leitt til þess að 4,500 börn til viðbótar deyi fyrir fyrsta afmælisdaginn og brottfall úr skóla gæti aukist um 117 þúsund börn á árinu. Í greiningunni er bent á að því fátækari sem fjölskyldur verða því hærra hlutfall tekna fer í mat, eldsneyti og aðrar nauðsynjar. Þegar framfærslan eykst verður ekkert eftir til að mæta öðrum þörfum, eins og til heilbrigðisþjónustu og menntunar.

„Framfærslukreppan sem fylgir í kjölfarið þýðir að fátækustu börnin hafa enn minni möguleika á að fá aðgang að nauðsynlegri þjónustu og eiga frekar á hættu að verða fyrir ofbeldi og misnotkun. Og í mörgum tilvikum varir fátækt barna ævilangt og viðheldur vítahring erfiðleika og báginda kynslóð fram af kynslóð,“ segir í skýrslu UNICEF.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
1 Engin fátækt

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta