Hoppa yfir valmynd
18.10. 2022 Utanríkisráðuneytið

Þríðjungur kvenna í þróunarríkjum barnshafandi á unglingsaldri

Fimmtán ára stúlka frá Sambíu með barn sitt. Ein af myndunum á sýningunni í Smáralind. - mynd

Því sem næst þriðjungur allra kvenna í þróunarríkjunum verður barnshafandi nítján ára eða yngri. Fylgikvillar fæðinga eru ein helsta dánarorsök unglingsstúlkna en barnungar mæður eru líka í áhættuhópi þegar kemur að alvarlegum mannréttindabrotum. Líkurnar á því að þær eignist fleiri börn á unglingsaldri eru enn fremur miklar.

Þessar upplýsingar komu meðal annars fram í skýrslu Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna fyrr á árinu en nú er yfirstandandi ljósmyndasýningin „Barnungar mæður“ í Smáralind á vegum sjóðsins og Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, með stuðningi utanríkisráðuneytisins. Sýningunni lýkur 24. október.

Á hverju ári er áætlað að um tvær milljónir stúlkna eignist börn fyrir fimmtán ára aldur. Barnæsku þeirra er skipt út fyrir móðurhlutverk – oft gegn þeirra vilja. Stúlkur í slíkri stöðu geta staðið fyrir miklum hindrunum í lífinu þar sem þær ná oft ekki að mennta sig, giftast ungar og margar hverjar lifa með alvarlegum heilsufarsvandamálum tengdum meðgöngu þar sem þær hafa ekki náð fullum líkamsþroska.

Ljósmyndarinn Pieter ten Hoopen og fjölmiðlakonan Sofia Klemming Nordenskiöld hittu barnungar mæður í fimm löndum og þremur heimsálfum. Sögur þeirra sýna raunveruleikann sem barnungar mæður standa frammi fyrir og sýna okkur hvers vegna þær urðu mæður svona ungar, hvaða erfiðleikum þær standa frammi fyrir, í hverju hamingja þeirra felst og frá brostnum og nýjum draumum – þeirra eigin og fyrir hönd barna þeirra.

Með átakinu #childmothers, leitast Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna, í samstarfi við Plan International, við að gefa þessum stúlkum rödd. „Það þarf að leggja meira af mörkum til að vernda stúlkur í þessari stöðu og gera þeim kleift að taka eigin ákvarðanir. Þá er ekki síst mikilvægt að ná til þeirra sem eru nú þegar orðnar mæður og tryggja möguleika þeirra á að snúa aftur í skóla og fylgja draumum sínum,“ eins og segir í frétt á vef Sameinuðu þjóðanna.

Íslensk stjórnvöld styðja við margvísleg verkefni UNFPA, meðal annars í Malaví og Síerra Leóne, sem eru samtarfsríki Íslands á sviði tvíhliða þróunarsamvinnu, um afnám barnahjónabanda og aðgengi að skurðaðgerðum vegna fæðingarfistils. Þar að auki hefur Ísland lengi stutt við samstarfsverkefnis UNFPA og UNICEF um afnám kynfæralimlestinga á konum og stúlkum í 17 löndum.  UNFPA er ein af fjórum áherslustofnunum utanríkisráðuneytisins í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
5. Jafnrétti kynjanna
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta