Hoppa yfir valmynd
03.11. 2022 Utanríkisráðuneytið

Varað við uppflosnun og átökum vegna loftslagsbreytinga

Loftslagsbreytingar leiddu til þess að 22,2 milljónir manna lentu á vergangi á síðasta ári og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, WFP, óttast að árið 2050 gæti þessi tala verið komin upp í 216 milljónir. Í nýrri skýrslu bendir stofnunin á margfalda áhættu af loftslagsbreytingum vegna félagslegrar spennu og uppflosnunar samfélaga vegna takmarkaðra auðlinda.

Í skýrslunni – WFP Climate Action in Fragile Contexts – kemur fram að í þeim tuttugu löndum sem eru viðkvæmust fyrir áhrifum loftslagsbreytinga séu vopnuð átök í tólf ríkjum. Þá bendir stofnunin á þá staðreynd að íbúar þessara ríkja hafi fengið óverulegan hluta af fjárhagsstuðningi sem alþjóðasamfélagið veitir vegna loftslagsbreytinga.

„Til að takast á við loftslagskreppuna og tryggja fæðuöryggi á heimsvísu er brýn þörf á að forgangsraða aðgerðum í loftslagsmálum á viðkvæmum svæðum þar sem átök geisa. Beina þarf fjármagni til þessara viðkvæmu staða til að styðja samfélög til að laga sig að loftslagsbreytingum, bæta friðarhorfur og hverfa frá síendurteknum vítahringjum áfalla sem kalla á mannúðaraðstoð,“ segir í skýrslunni.

Filippo Grandi flóttamannastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti svipuðum skoðunum á upplýsingafundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær. Hann telur nauðsynlegt að ræða viðbrögð við loftslagsbreytingum í ljósi áhrifa þeirra á stríðsátök og uppflosnun samfélaga. Hann kvaðst vænta að þessar afleiðingar verði ræddar á COP27 loftslagsráðstefnunni sem hefst í Egyptalandi um helgina.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
2. Ekkert hungur
17. Samvinna um markmiðin
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta