Hoppa yfir valmynd
10.11. 2022 Utanríkisráðuneytið

Kanna kælingu epla undir Himaljafjöllum með jarðvarma frá lághitasvæðum

Myndin tekin í vettvangsferðinni. Ljósmynd: GEK - mynd

Eplabændur í Kinnaur héraði í Himachal héraðinu í norðurhluta Indlands undir Himaljafjöllum eru áhugasamur um tilraunaverkefni á vegum íslenska þróunarfyrirtækisins GEG ehf. um nýtingu á jarðvarma frá lághitasvæðum til að kæla ávexti, einkum epli, sem héraðið er þekkt fyrir. Á dögunum heimsótti óháður ráðgjafi heimsmarkmiðasjóðs atvinnulífs um þróunarsamvinnu verkefnasetur GEG á Indandi. Heimsmarkmiðasjóðurinn, sem rekinn er af utanríkisráðuneytinu, styrkir verkefnið.

Í fjallahéraðinu er að finna jarðvarma á lághitasvæðum og verkefnið snýst um að rannsaka möguleika á því að nýta hann til að keyra gufudrifna kæliklefa fyrir epli. Sú aðferð yrði til muna ódýrari leið til að kæla ávextina en nýting á raforku, auk þess að eplin geymast lengur í kælum og bændur fá hærra verð fyrir þau á markaði. Engar kæligeymslur eru fyrir hendi í héraðinu.

Guðni Bragason sendiherra Íslands á Indlandi átti fund í sumar með Jai Ram Thakur, forsætisráðherra fylkisins. Tilgangur var sá að kynna jarðvarmaverkefni GEG í fylkinu en forsætisráðherrann er áhugasamur um jarðvarmanýtingu, ekki aðeins fyrir landbúnaðarframleiðslu í Kinnaur heldur einnig fyrir framþróun ferðamennsku og fiskeldis.

Ráðgjafi heimsmarkmiðasjóðsins heimsótti eplabúgarða og ræddi við eplaræktendur. Hann fór einnig í vettvangsheimsókn á vatnasvæði Satluj árinnar þar sem fyrsta borun á vegum GEG fór fram í síðasta mánuði. Einnig var farið í heimsóknir á nokkur önnur möguleg lágvarðhitasvæði.

Verkefninu á að ljúka í árslok 2023.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta