Hoppa yfir valmynd
15.11. 2022 Utanríkisráðuneytið

Mannkyn átta milljarðar: Fögnum fjölbreytileika og framförum

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Í dag, 15. nóvember 2022, verðum við átta milljarðar sem búum þessa jörð. „Á þessum tímamótum er tilefni til að fagna fjölbreytileika og framförum um leið og hugað er að sameiginlegri ábyrgð mannkyns á jörðinni,“ sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni dagsins.

Mannkyni fjölgar mest vegna þess að fólk lifir lengur. Fernt vegur þyngst, betri lýðheilsa, betri næring, aukið persónulegt hreinlæti og framfarir í læknavísindum. En mannkyni fjölgar líka hratt vegna þess að í sumum löndum fæðast mörg börn.

Það tók mannkynið tólf ár að fjölga úr sjö milljörðum í átta. Mannfjöldaspár segja að eftir fimmtán ár verði íbúar jarðarinnar níu milljarðar. Árið 2037. Það er til marks um að heildarfjölgun jarðarbúa hægir á sér.

Í löndum þar sem flest börn fæðast að jafnaði í hverri fjölskyldu eru að jafnaði lægstu tekjur á mann. Fólksfjölgun í heiminum hefur því með tímanum orðið sífellt meiri meðal fátækustu ríkja heims. Flest þeirra eru í Afríku sunnan Sahara. Sameinuðu þjóðirnar benda á að i þessum löndum geti viðvarandi og hröð fólksfjölgun komið í veg fyrir að heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun náist sem er „besta leið heimsins í átt að hamingjusamri og heilbrigðri framtíð,“ eins og segir í frétt samtakanna.

Sameinuðu þjóðirnar vekja líka athygli á því að þótt mannfjölgun auki umhverfisáhrif séu hækkandi tekjur á mann helsti drifkraftur ósjálfbærs framleiðslu- og neyslumynsturs. „Þau ríki þar sem neysla og losun gróðurhúsalofttegunda er mest eru þau ríki þar sem tekjur eru hæstar, ekki þau ríki þar sem mannfjölgunin er mikil.“

Að mati Sameinuðu þjóðanna þarf með afgerandi hætti að draga úr ósjálfbæru framleiðslu- og neyslumynstri til þess að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins og heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. „Samt gæti hægari fólksfjölgun í marga áratugi hjálpað til við að draga úr frekari uppsöfnun umhverfisskaða á síðari hluta yfirstandandi aldar,“ segir í fréttinni.

Vefur Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna: 8 billions – A world of Infinite Possibilities

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta