Hoppa yfir valmynd
21.11. 2022 Utanríkisráðuneytið

Samtal við þingmenn um þróunarsamvinnu

Frá fundinum í Iðnó með þingmönnum. Ljósmynd: FS - mynd

Frjáls félagasamtök í þróunarsamvinnu (FFÞ) buðu þingmönnum í síðustu viku til umræðu og fræðslu í Iðnó um alþjóðlega þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð. Þar voru haldin fróðleg og áhugaverð erindi um þróunarsamvinnu og boðið upp á samtal þar sem fulltrúar viðkomandi félaga sátu fyrir svörum.

Viðburðurinn, sem styrktur var af utanríkisráðuneytinu, var ætlaður þingmönnum sem taka ákvarðanir um málaflokkinn og þeim sem hafa áhuga á honum. Mæting var góð og spunnust áhugaverðar umræður um málaflokkinn. Vel þótti til takast og höfðu margir á orði að mikilvægt væri að halda viðburð sem þennan með reglubundnum hætti.

,,Þetta var vel skipulagt. Upplýsingar voru á mannamáli, engar langlokur og náðuð þið að tengja okkur við bitran raunveruleika og hörmungar fólks á öllum aldri og kynjum i þróunarlöndum heimsins. Og ekki síst nauðsyn þess fyrir heiminn allan að taka af festu og ábyrgð á aðstæðum fólks sem þarf sannanlega á hjálp okkar að halda. Það er allt undir og þið komuð því vel til skila. Tilfinningin var einnig sú eftir fundinn að við Íslendingar erum lánsöm þjóð að hafa fagfólk með mikla þekkingu sem fer fyrir okkur i þróunar- og hjálparstarfi,‘‘ er haft eftir einum þingmanni á vef Félags Sameinuðu þjóðanna.

Þar segir enn fremur að markmið þróunarsamvinnu krefjist aukinnar umræðu, þar með talið mannúðaraðstoðar, og hvernig megi sem best nýta þá fjármuni sem settir eru í málaflokkinn þannig að þeir komi til móts við þarfir þeirra sem mest þurfi á aðstoð að halda.

Frjáls félagasamtök í þróunarsamvinnu (FFÞ) eru: ABC barnahjálp, Barnaheill, CLF á Íslandi, Hjálparstarf kirkjunnar, Kristniboðssambandið, Rauði Krossinn á Íslandi, SOS Barnaþorp, UNICEF á Íslandi og UN Women á Íslandi. Viðburðurinn var haldinn sem hluti af fræðsluvettvanginum“ Þróunarsamvinna ber ávöxt“.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta