Össur þjálfar úkraínska stoðtækjafræðinga
Verkefni heilbrigðistæknifyrirtækisins Össurar í Úkraínu gengur vonum framar og aðstæður í stríðshrjáðu landinu hafa ekki hamlað möguleikum á þjálfun úkraínska stoðtækjafræðinga. Össur fékk sem kunnugt er styrk frá utanríkisráðuneytinu fyrr á árinu til þess að vinna með úkraínskum sérfræðingum við að útvega stoðtæki til þeirra fjölmörgu sem hafa misst útlimi í stríðsátökunum.
Verkefnið felst þó ekki síður í klínískri þjálfun stoðtækjafræðinga og annarra sérfræðinga úr heilbrigðisstéttum og fræðslu um nýjustu stoðtækjalausnir. Í þeim erindagjörðum hafa úkraínskir stoðtækjafræðingar og aðrir fulltrúar frá Úkraínu farið í þjálfun á vegum Össurar, bæði í Hollandi og Noregi. Þrír úkraínskir stoðtækjafræðingar komu til Osló í þjálfun í ágúst ásamt úkraínskum hermanni að nafni Ruslan Serbov sem hafði særst í Mariupol í maí. Þá fór dr. Anton Jóhannesson stoðtækjasérfræðingur Össurar til Lviv seint í september og hélt fjölsótt námskeið fyrir heimamenn. Eins er námskeið fyrirhugað um miðjan desember.
Össur gefur vörur í verkefnið og til þessa hafa fjórar vörusendingar farið til Úkraínu frá vöruhúsi fyrirtækisins í Hollandi. Fyrirtækið hætti starfsemi í Rússlandi í febrúar þegar Rússar réðust inn í Úkraínu og hét því að gefa vörur og klíníska sérþekkingu til Úkraínu með því að vinna beint með stoðtækjasérfræðingum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum til að tryggja sjálfbæra endurhæfingarþjónustu.
Forstjóri Össurar, Sveinn Sölvason, segir: „Við erum afar þakklát fyrir styrkinn sem var úthlutaður úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu enda hefur það gert okkur kleift að veita mikilvæga þjálfun til handa úkraínskum stoðtækjafræðingum sem koma til með að setja vörur Össurar á einstaklinga sem hafa orðið fyrir aflimun í yfirstandandi stríði. Klínísk þekking er ekki síður mikilvæg í ástandinu sem nú ríkir þar sem aflimuðum fjölgar því miður dag frá degi og áhersla okkar er að byggja upp þekkingu sem mun nýtast til langframa enda munu einstaklingarnir þurfa á þjónustu að halda um ókomin ár.“