Hoppa yfir valmynd
01.12. 2022 Utanríkisráðuneytið

Bólusetningarherferð í Malaví gegn landlægri kóleru

Ljósmynd: UNICEF - mynd

Í vikunni hófst í Malaví herferð á vegum stjórnvalda gegn kólerufaraldri sem geisar í öllum 29 héruðum landsins. Átakið beinist að 2,9 milljónum einstaklinga, ársgömlum og eldri, og hefur þann tilgang að gefa bóluefni gegnum munn til að slá á yfirstandandi faraldur og hefta frekari útbreiðslu þessa alvarlega sjúkdóms. Herferðin stendur aðeins yfir í fáeina daga, og lýkur annað kvöld, en hún nær til þeirra þrettán héraða þar sem veikindin eru útbreiddust.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, hefur fyrir milligöngu Alþjóðasamráðshóps um bólusetningu, haft milligöngu um öflun 2,9 milljóna bóluefna fyrir ríkisstjórn Malaví, sem fjármögnuð eru af alþjóðlega bólusetningarbandalaginu, GAVI.

„Þessi bólusetningarherferð kemur á mikilvægum tíma nú þegar regntímabilið er hafið og vatn er auðmengað. En bóluefni eru bara eitt atriði af mörgum til að tryggja varnir gegn kóleru. Það er líka nauðsynlegt að leggja hönd á plóginn við að meðhöndla sjúka og bæta vatn og hreinlætiskerfi,“ segir Dr. Neema Rusibamayila Kimambo, fulltrúi WHO í Malaví.

Þetta er önnur herferðin gegn kóleru í Malaví á árinu, sú fyrsta var í júní í sumar í suðurhluta landsins og náði til rúmlega einnar og hálfrar milljónar manna. Héruðin þrettán sem herferðin nær til að þessu sinni voru ákvörðuð í kjölfar ítarlegrar greiningar á sögulegum og núverandi faraldsfræðilegum gögnum og áhættuþáttum.

Kólerufaraldurinn sem nú geisar í Malaví hófst í febrúar á þessu ári. Alls hafa verið skráð rúmlega eitt þúsund tilfelli og 299 dauðsföll.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta