Hoppa yfir valmynd
04.12. 2022 Utanríkisráðuneytið

Helmingur barnanna á íslenska SOS-foreldra

Frá heimsókn utanríkisráðherra í SOS Barnaþorpið í Lilongve. - mynd

Helmingur barna á SOS barnaheimilinu í Lilongve, höfuðborg Malaví, á íslenska SOS-foreldra. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra heimsótti SOS-barnaþorpið í dag, á fyrsta degi vinnuheimsóknar til Malaví, elsta samstarfsríkis Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.

SOS Barnaþorpin eru fjögur í Malaví og samtökin sjá 433 umkomulausum og yfirgefnum börnum fyrir heimilum í landinu, þar af eiga 166 þeirra styrktarforeldra á Íslandi. Hlutfallið er enn hærra í barnaþorpinu í Lilongve, eða 43 börn af 88. Hope Msosa, aðstoðarframkvæmdastjóri SOS í Malaví tók á móti ráðherra og sagði frá helstu verkefnum samtakanna í landinu.

„Frjáls félagasamtök eru mikilvægir samstarfsaðilar í þróunarsamvinnu og ráðuneytið gerði fyrr á árinu rammasamninga við nokkur þeirra, þar á meðal SOS Barnaþorpin, sem við höfum átt langt og farsælt samstarf við. Það er mjög ánægjulegt að kynnast starfi samtakanna í Malaví og sjá með eigin augum að velferð barnanna er sett í öndvegi. Mér finnst einnig mikið koma til þeirrar nýju áherslu samtakanna að styðja við nærsamfélagið með verkefnum á sviði fjölskyldueflingar,“ segir Þórdís Kolbrún.

Fyrr á þessu ári hófu SOS Barnaþorpin á Íslandi að styðja við sérstakt fjölskyldueflingarverkefni í Malaví. Markmið þess að er að forða börnum frá aðskilnaði við foreldra og styðja fjölskyldur til fjárhagslegs sjálfstæðis. Stuðningurinn nær til 1500 barna og ungmenna í 400 fjölskyldum sem vegna bágra aðstæðna heima fyrir fá ekki grunnþörfum sínum mætt. Önnur 15 þúsund börn frá 500 heimilum njóta óbeint góðs af verkefninu því hluti þess er að styðja veikbyggða innviði í samfélaginu. Alls eru um ein milljón barna í Malaví sem hafa misst annað foreldri sitt eða báða og þurfa á ríkum stuðningi að halda.

Hluti af kostnaði við fjölskyldueflingarverkefnið kemur frá utanríkisráðuneytinu gegnum rammasamning við SOS Barnaþorpin á Íslandi.

Utanríkisráðherra kemur einnig til með að eiga fund með fulltrúum Rauða krossins í Malaví í vikunni en Rauði krossinn á Íslandi hefur um tveggja áratuga skeið átt í samstarfi við systurfélagið í Malaví.

  • Helmingur barnanna á íslenska SOS-foreldra - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta