Hoppa yfir valmynd
05.12. 2022 Utanríkisráðuneytið

Samstarfssamningur Íslands og Malaví endurnýjaður á tvíhliða fundi

Utanríkisráðherrar Íslands og Malaví með endurnýjaðan samstarfssamning. - mynd

Samstarfssamningur Íslands og Malaví var endurnýjaður í dag á tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum ríkjanna í Lilongve, höfuðborg Malaví. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra átti tvíhliða fund í morgun með Nancy Tembo utanríkisráðherra Malaví þar sem samstarfssamningurinn var formlega endurnýjaður.

Þórdís Kolbrún er í fyrstu vinnuheimsókn sinni til samstarfsríkis í þróunarsamvinnu til  þess að kynnast aðstæðum í Malaví og sjá árangur verkefna sem njóta stuðnings íslenskra stjórnvalda. Hún mun meðal annars heimsækja samstarfshéruð Íslands, Mangochi og Nhkotakota.

Malaví er elsta samstarfsríki Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og upphaf samstarfsins má rekja allt aftur til ársins 1989. Fyrsti samstarfssamningurinn var gerður árið 1999 og uppfærður fáeinum árum síðar. Samningurinn var nýlega yfirfarinn og uppfærður af ráðuneytum beggja ríkjanna og lítilsháttar breytingar gerðar.

Ísland hefur lengst af stutt byggðaþróunarverkefni í Mangochi héraði og frá árinu 2012 í beinu samstarfi við héraðsstjórvöld. Verkefnin hafa einkum snúið að félagslegum innviðum á sviði vatns- og hreinlætismála, heilsu og menntunar, auk verkefna um kynjajafnrétti og valdeflingu ungmenna. Verið er að skoða hvernig leggja megi ríkari áherslu á loftslags- og umhverfismál á næstu árum því afleiðingar loftslagsbreytinga ógna efnahagslegum framförum í landinu og stefna matvælaöryggi  í hættu.

„Við höfum átt í árangursríku samstarfi á fjórða áratug og það er mér tilhlökkunarefni að sjá með eigin augum afrakstur af samvinnu þjóðanna á næstu dögum. Með endurnýjun á samstarfssamningnum staðfestum við vilja Íslands og Malaví til að halda áfram að vinna saman að framförum með framtíðarsýn stjórnvalda í Malaví að leiðarljósi,“ sagði utanríkisráðherra eftir undirritun samningsins í utanríkisráðuneytinu í Lilongve.

Í máli Nancy Tembo utanríkisráðherra Malaví kom skýrt fram mikil ánægja með langt og farsælt samstarf við Ísland. Hún hrósaði sértaklega verklagi Íslands í þróunarsamvinnu, svokallaðri héraðsnálgun, þar sem unnið er beint með tilteiknum héraðsyfirvöldum að umbótum í grunnþjónustu við íbúa.

Í samningnum er kveðið á um réttindi og skyldur Íslands gagnvart malavískum stjórnvöldum og þar eru meðal annars ákvæði um útboðs- og innkaupsferla og ákvæði gegn spillingu, auk ákvæða um varnir gegn kynferðislegu ofbeldi og áreiti.

Ísland starfar einnig með stofnunum Sameinuðu þjóðanna í Malaví og innlendum frjálsum félagasamtökum. Enn fremur hafa á annað hundrað sérfræðingar frá Malaví stundað nám á Íslandi við GRÓ skólana, Jafnréttisskólann, Landgræðsluskólann, Sjávarútvegsskólann og Jarðhitaskólann.

Ráðherra átti einnig fundi með frjálsum félagasamtökum í dag, Gender Justice Unit og Go Fund a Girl Child, auk Mannréttindaskristofu Malaví, en Ísland gerði nýlega samstarfssamninga við þau um jafnréttismál. Í gær heimsótti utanríkisráðherra SOS Barnaþorp í höfuðborginni Lilongve, sjá fréttir í, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunarsamvinnu og mannúðarmál.

  • Utanríkisráðherra svarar fréttamönnum eftir undirritun samninga í utanríkisráðuneyti Malaví. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
4. Menntun fyrir öll
5. Jafnrétti kynjanna
6. Hreint vatn og hreint

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta