Hoppa yfir valmynd
07.12. 2022 Utanríkisráðuneytið

Miðstöð fæðingarfistils í nafni Lilju Dóru opnuð í Malaví

Þórdís Kolbrún og Halima Daud, vararáðherra sveitarstjórnarmála Malaví, við opnunina í gær. Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Malaví lengst t.h. og Nelia Rodrigues, yfirmaður UNFPA í Malaví lengst t.v. - myndUNFPA Malawi

Í dag var formlega tekin í notkun ný miðstöð og skurðstofa við héraðssjúkrahúsið í Mangochi í Malaví þar sem boðið er upp heildstæðan stuðning við konur og stúlkur sem þjást af fæðingarfistli og/eða hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Halima Daud vararáðherra sveitarstjórnarmála Malaví opnuðu miðstöðina sem er samvinnuverkefni íslenskra og malavískra stjórnvalda í samstarfi við Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna, UNFPA.

Miðstöðin nefndist „Lilja’s Fistula and One Stop Centre“ til minningar um Lilju Dóru Kolbeinsdóttur sem lést úr leghálskrabbameini fyrir tveimur árum. Hún var ötull talsmaður kynjajafnréttis og kynheilbrigðis og helgaði stærstan hluta ævi sinnar þróunarstarfi í Afríku, meðal annars sem forstöðumaður sendiráðs Íslands í Malaví.

„Jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna eru hornsteinar utanríkisstefnu okkar og þróunarsamvinnu. Það er viðeigandi virðingarvottur að minnast arfleifðar Lilju Dóru og tilfinningaþrungin stund fyrir okkur að sjá sýn hennar verða að veruleika hér í dag. Ég vænti þess að miðstöðin bæti lífsgæði kvenna og stúlkna í Mangochi sem búa ekki aðeins við örkuml í kjölfar fæðingar heldur einnig alvarlega félagslega smán,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Starfið í miðstöðinni felst í sálrænum stuðningi, fistúluaðgerðum auk efnahagslegrar valdeflingar fyrir konur sem dvelja þar. Enn fremur er fræðsla veitt í samfélaginu um einkenni, orsakir og afleiðingar fistils en hluti af dagskránni í dag var samtal ráðherra við konur og stúlkur sem hafa læknast af fæðingarfistli.

  • Lilja Dóra heitin (t.h.) skrifar undir verkefnasamning árið 2019 á yfirstandandi verkefni með þáverandi yfirmanneskju UNFPA í Malaví. Í gær opnaði ráðherra stærsta áfanga þess verkefnis. - mynd
  • Yfirlæknir miðstöðvarinnar kynnir fyrirhugaða starfsemi. - mynd
  • Hópmynd eftir heimsókn til hérðasstjóra Mangochi. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta