Hoppa yfir valmynd
09.12. 2022 Utanríkisráðuneytið

Áratugur frá upphafi samstarfs um heimaræktaðar skólamáltíðir

Ísland var fyrst framlagsríkja til að taka höndum saman við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, WFP, um næringaríkar heimaræktaðar skólamáltíðir fyrir grunnskólanemendur í Malaví. Fyrir réttum tíu árum var samstarfið innsiglað með hátíð í Kankhande skólanum í Mangochi héraði. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra heimsótti einmitt þann skóla í dag í vinnuferð sinni í Malaví til að kynna sér verkefnið.

WFP hefur frá árinu 2012 séð um 327 nemendum í Kankhande grunnskólanum fyrir skólamáltíðum með stuðningi frá Íslandi. Skólanum eru lagðar til 700-1.200 Bandaríkjadalir á önn til að kaupa hráefni í skólamáltíðir og veltur upphæðin á fjölda nemenda við skólann hverju sinni. Máltíðirnar eru unnar úr hráefnum frá bændum í nágrenninu og skapar þannig atvinnutækifæri í héraðinu. Þar að auki þjálfar WFP bændur og styður við nýsköpun í framleiðsluaðferðum. Heimaræktaðar máltíðir hafa sannað gildi sitt og stofnunin hefur að markmiði að allar skólamáltíðir verði heimaræktaðar um heim allan. 

Halima Daud vararáðherra sveitarstjórnarmála heiðraði heimamenn á hátíð á skólalóðinni í dag í tilefni af heimsókn íslenska utanríkisráðherrans, en einnig kynntu fulltrúar WFP, kennarar, skólastjóri, fulltrúar héraðsins og bændur hugmyndafræðina að baki verkefninu og þann augljósa árangur sem það hefur á mörgum sviðum. Heimaræktaðar skólamáltíðir auka sjálfbærni og hafa auk jákvæðra áhrifa á skólagöngu, nám og næringu barna, margföldunaráhrif á þróun í samfélaginu öllu til heilla.

Samstarfsáætlun Íslands og WFP fyrir tímabilið 2021-2024 nær til 12,742 nemenda í tíu grunnskólum og 1.500 bænda í Mangochi héraði. 

Til að bregðast við COVID-19 faraldrinum og lokunum skóla beindu sendiráðið og WFP fjármagni úr skólamáltíðaverkefninu til fjölskyldna skólabarna svo hægt væri að tryggja áfram næringaríkar máltíðir fyrir börnin í skólunum sem verkefnið styður. Þegar skólar opnuðu aftur í september 2021 hófust skólamáltíðir á ný.

  • Áratugur frá upphafi samstarfs um heimaræktaðar skólamáltíðir - mynd úr myndasafni númer 1
  • Áratugur frá upphafi samstarfs um heimaræktaðar skólamáltíðir - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur
4. Menntun fyrir öll
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta