Hoppa yfir valmynd
30.12. 2022 Utanríkisráðuneytið

Nýtt verkefni Barnaheilla í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó

Ljósmynd: Barnaheill - mynd

Barnaheill – Save the Children á Íslandi, með stuðningi utanríkisráðuneytisins, hafa hafið þróunarverkefni í Goma í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó til að styðja við og vernda börn er búa á götunni. Mörg börn hafa ekki í nein hús að venda og búa á götunni í Goma.

Í frétt Barnaheilla kemur fram að börnin hafi orðið aðskila við fjölskyldur sínar af margvíslegum ástæðum, eins og vegna vanrækslu og fátæktar. Eins hafa börn orðið viðskila við fjölskyldur sínar sem eru á vergangi vegna átaka sem varað hafa í áratugi, tíðra eldgosa frá Nyiragongo eldfjallinu og mikilla flóða.

„Þar sem Goma er staðsett á átakasvæði er mikill viðbúnaður lögreglu og hers í borginni. Götubörn eru útsett fyrir margvíslegu ofbeldi af þeirra hendi, svo sem barsmíðum og nauðgunum. Eins þekkjast svokallaðar hreinsanir, þar sem götubörn eru myrt í skjóli nætur. Börn sem búa á götunni eiga á hættu að smitast af kynsjúkdómum, verða fórnarlömb glæpa og taka eigið líf. Til að deyfa sársaukann leiðast mörg barnanna út í neyslu eiturlyfja og eiturefna. Til að mynda að sniffa bensín, lím, hamp og neyta áfengis,“ segir í fréttinni.

Á dögunum heimsótti Guðrún Helga Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Barnaheilla, Goma og vann að undirbúningi verkefnis Barnaheilla á svæðinu. Verkefnið sem er til þriggja ára miðar að því að styðja við og vernda börn er búa á götunni í Goma og veita þeim möguleika á menntun. Barnaheill munu vinna með kongólsku frjálsu félagasamtökunum CAJED og Gingando auk DIVAS félagsmálayfirvöldum í Goma að því að vernda og valdefla götubörn í borginni. Börnunum verður boðið að snúa aftur til náms, hvort heldur sem er bóklegs eða verklegs. Auk þess verður börnunum boðin sálfræðiaðstoð og valdefling í gegnum Capoeira dans.

Verkefnið beitir heildrænni nálgun og veitir börnum, foreldrum og samfélaginu forvarnafræðslu til að stuðla að því að koma í veg fyrir að börn lendi á götunni og dregur þannig úr líkum á því hörmulega ofbeldi sem götubörn eru útsett fyrir.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
4. Menntun fyrir öll
2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta