Hoppa yfir valmynd
09.01. 2023 Utanríkisráðuneytið

Nýtt heildstætt verkefni um uppbyggingu vatns- og hreinlætisaðstöðu í sjávarbyggðum í Síerra Leóne

Fulltrúar utanríkisráðuneytisins og UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í Síerra Leóne, undirrituðu nýverið samstarfssamning um áframhaldandi stuðning við uppbyggingu vatns- og hreinlætisaðstöðu í sjávarbyggðum í Síerra Leóne. Um er að ræða umfangsmikið og samþætt verkefni til fjögurra ára, frá 2022 til 2026, sem mun ná til sextán afskekktra fiskiþorpa þar sem innviðir og grunnþjónusta er afar takmörkuð.

Verkefnið byggir á farsælu samstarfi utanríkisráðuneytisins og UNICEF með stjórnvöldum í Síerra Leóne frá árinu 2019 um uppbyggingu vatns- og hreinlætismála í sjávarbyggðum Þörfin fyrir bætt aðgengi að vatns- og hreinlætisaðstöðu í landinu er mikil, sérstaklega í fiskimannasamfélögum þar sem aðgengi að neysluhæfu vatni til drykkjar og hreinlætis er áskorun og tíðni vatnsborinna sjúkdóma há. Þörf fyrir frekari og víðtækari uppbyggingu er því mikil á þessu sviði og undirbúningsvinna fyrir áframhald verkefnisins hefur staðið yfir síðastliðin ár.

Í verkefninu er lagt upp með metnaðarfulla og heildstæða nálgun, með það að markmiði að bæta lífskjör íbúa fátækra og jaðarsettra fiskimannasamfélaga. Sérstök áhersla er lögð á að bæta aðstæður barna og kvenna í samfélögunum auk þess sem leitast er við að samþætta umhverfis- og loftslagsmál í alla verkþætti. Samhliða uppbyggingu á vatnsveitum og hreinlætisaðstöðu, meðal annars við heilsugæslustöðvar, skóla og löndunarstöðvar, verður stutt við byggingu og starfsemi leikskóla, aðgengi að aðstöðu og fræðslu fyrir tíðaheilbrigði stúlkna og byggingu á fisklöndunarpöllum með aðgengi að vatni og sólarknúinni lýsingu. Enn fremur verður stutt við viðleitni til að draga úr plastmengun við löndunarstaði og jafnframt verður stuðlað að endurvinnslu og atvinnusköpun með uppbyggingu endurvinnslustöðva þar sem konur og ungmenni fá þjálfun í nýtingu plastúrgangs og annars sorps til framleiðslu á nytsamlegum vörum.

Stefnt er að opnun sendiráðs Íslands í Síerra Leóne á árinu og þetta verður eitt af lykilverkefnum í samstarfinu á komandi árum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

6. Hreint vatn og hreint
3. Heilsa og vellíðan
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta