Hoppa yfir valmynd
25.01. 2023 Utanríkisráðuneytið

Menntun: Tímabært að breyta fyrirheitum í markvissar aðgerðir

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Gögn frá Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, sýna að um 244 milljónir drengja og stúlkna eru enn utan skóla á þessu ári. Að auki geta 70 prósent 10 ára barna í lág- og meðaltekjulöndum ekki lesið og skilið einfaldan texta.

„Fyrirheit sem gefin voru á síðasta ári á tímamótaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um að umbreyta menntun á heimsvísu verða að komast í framkvæmd,“ sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni alþjóða menntadagsins í gær, 24. janúar.

Þema alþjóðadagsins í ár er „að fjárfesta í fólki, forgangsraða menntun". Sérstök áhersla er lögð á stúlkur og konur í Afganistan sem hefur verið bannað að sækja framhaldsskóla og háskóla í kjölfar yfirtöku talíbana í ágúst 2021.

 „Við skulum skapa menntakerfi, sem styður samfélög jöfnunar, sterkra hagkerfa og takmarkalausa drauma sérhvers nemanda í heiminum,” sagði Guterres í ávarpinu. Hann varaði sérstaklega við vanfjárfestingu í menntun. "Það hefur alltaf verið áfall fyrir mig að menntun hafi fengið svo lítinn forgang í mörgum stefnumálum stjórnvalda og í alþjóðlegu samstarfi," sagði hann og minnti á leiðtogafundinn á síðasta ári um að „endurhugsa kennslustofuna“ og umbreyta menntakerfum svo nemendur fái aðgang að þeirri þekkingu og færni sem þarf til að ná árangri.

Fulltrúar rúmlega 130 þjóða skuldbundu sig  í lok ráðstefnunnar til að tryggja að alhliða gæðamenntun verði meginstoð opinberrar stefnu og fjárfestinga.

„Nú er rétti tíminn fyrir öll lönd að breyta skuldbindingum sínum á leiðtogafundinum yfir í markvissar aðgerðir sem skapa stuðnings- og námsumhverfi án aðgreiningar fyrir alla nemendur," sagði Guterres. "Nú er einnig kominn tími til að binda enda á öll lög sem fela í sér mismunun og allar venjur sem hindra aðgang að menntun," bætti hann við. "Ég skora sérstaklega á yfirvöld í Afganistan í reynd að snúa við svívirðilegu banni við aðgengi stúlkna að framhaldsmenntun." 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta