Hoppa yfir valmynd
26.01. 2023 Utanríkisráðuneytið

Urðu vitni að hugrekki og staðfestu afganskra kvenna

Ljósmynd: UN Women - mynd

Sendinefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna átti nýverið fund með talíbanastjórninni í Afganistan um stöðu kvenna og stúlkna í landinu. Farið var fram á að talíbanastjórnin afturkalli reglur sem banni afgönskum konum að starfa fyrir alþjóðleg og innlend félagasamtök í þróunarmálum. Sendinefndin var leidd af aðstoðarframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Amina Mohammed og Simu Sami Bahous, framkvæmdastýru UN Women.

Sendinefndin fundaði með fulltrúum talíbanastjórnarinnar bæði í Kabúl og Kandahar. Bannið var harðlega gagnrýnt, enda er það skýrt brot á réttindum kvenna og heftir starfsemi hjálparsamtaka í landinu.

Í grein á vef UN Women segir að afganskar konur sem starfa innan þróunarsamvinnu séu ómissandi starfskraftur, sér í lagi vegna allra þeirra hafta og banna sem talíbanastjórnin hefur komið á. „Konur geta gert það sem menn gera, en menn geta ekki gert það sem konur gera,“ er haft eftir afganskri starfskonu UN Women. „Vegna hafta og strangra reglna um samskipti kynjanna mega karlmenn ekki dreifa sæmdarsettum til kvenna, veita þeim heilbrigðisþjónustu eða áfallahjálp. Heimili sem rekin eru af konum og hafa ekki karlkyns fjölskyldumeðlim til að sækja mataraðstoð fyrir sig, hafa reitt sig á aðstoð starfskvenna félagasamtaka til að dreifa mataraðstoð til þeirra. Þessar fjölskyldur eiga nú á aukinni hættu að verða útundan þegar matar- og neyðaraðstoð er veitt. Þá torveldar bannið rekstur kvennaathvarfa, sem hafa fengið að starfa með sérstöku leyfi talíbana,“ segir í greininni.

Stór hluti afgönsku þjóðarinnar reiðir sig á mannúðaraðstoð til að draga fram lífið. Frá því í janúar 2022 og fram til nóvember sama ár, veittu mannúðar- og félagasamtök um 22 milljónum Afgana matar- og neyðaraðstoð. 12 milljónir hlutu heilbrigðisþjónustu, 6 milljónir barna og barnshafandi kvenna hlutu aðstoð til að koma í veg fyrir bráða vannæringu, 10,4 milljón einstaklingar fengu úthlutuðu vatni og hreinlætisvörum, svo fátt eitt sé nefnt.

Samkvæmt skýrslu UN Women um kynjuð áhrif bannsins, kemur í ljós að talíbanastjórnin hefur framfylgt þessu banni með markvissari hætti en öðrum reglum sem settar hafa verið frá valdatöku þeirra. Hingað til hefur það verið í sjálfsvald héraðsstjóra sett hvort og hvernig þeir framfylgi bönnum sem yfirstjórnin í Kabúl setur.

Sima Sami Bahous, framkvæmdastýra UN Women, segir stofnunina styðja afganskar konur í baráttunni fyrir mannréttindum sínum.  „Í Afganistan urðum vitni að hugrekki og staðfestu afganskra kvenna sem neita að láta afmá sig úr opinberu lífi. Þær munu halda áfram að berjast fyrir réttindum sínum og það er skylda okkar að styðja þær í baráttunni. Atburðarrásin sem hófst árið 2021 í Afganistan er mikið áhyggjuefni. Það sýnir okkur hversu auðvelt er að svipta konur grundvallarmannréttindum sínum á ekki lengri tíma en nokkrum dögum. UN Women stendur sem áður með afgönskum konum og við munum tryggja að raddir þeirra haldi áfram að hljóma.“

Sjá ítarlegri grein á vef UN Women

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
3. Heilsa og vellíðan
4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta