Hoppa yfir valmynd
08.02. 2023 Utanríkisráðuneytið

Neyðarsöfnun Hjálparstarfsins vegna jarðskjálftanna

Ljósmynd: Hjálparstarf kirkjunnar - mynd

Hjálparstarf kirkjunnar hefur hafið neyðarsöfnun vegna jarðskjálftans sem varð á landamærum Tyrklands og Sýrlands aðfaranótt mánudags. Þegar er ljóst að þúsundir hafa farist og tugþúsundir eiga um sárt að binda. Hamfarirnar eru af þeirri stærðargráðu að alþjóðleg neyðaraðstoð er aðkallandi. Tugir ríkja hafa þegar boðið fram aðstoð sína.

Hjálparstarfið leggur til að lágmarki ellefu milljónir króna sem systurstofnanir Hjálparstarfsins innan Alþjóðlegs hjálparstarfs kirkna - ACT Alliance - munu ráðstafa þar sem neyðin er sárust. Kirkens Nødhjelp, systurstofnun Hjálparstarfsins í Noregi, hefur til dæmis starfað í Sýrlandi um langt árabil og gat brugðist tafarlaust við. Sama á við um systurstofnanir Hjálparstarfsins í nágrannaríkjum Tyrklands og Sýrlands sem hófu dreifingu hjálpargagna aðeins fáum klukkustundum eftir að fyrstu jarðskjálftarnir riðu yfir.

Hjálparstarf kirkjunnar bendir í frétt á að borgarastríðið í Sýrlandi, sem hefur staðið í tólf ár, geri landið sérstaklega viðkvæmt fyrir áföllum. „Vegna stríðsins er talið að um tólf milljónir manna séu í bráðri þörf fyrir mannúðaraðstoð. Yfir sex milljónir manna eru á vergangi innan landamæra Sýrlands og lítið færri eru sýrlenskir flóttamenn í nágrannaríkjum; Líbanon, Jórdaníu og á hamfarasvæðunum við landamærin í Tyrklandi,“ segir í fréttinni.

Framlag Hjálparstarfs kirkjunnar til brýnnar aðstoðar við fórnarlömb jarðskjálftans er að meðtöldum veglegum styrk frá utanríkisráðuneytinu og styrkjum Hjálparliða, einstaklinga sem styrkja starfið með reglubundnum hætti.

Upplýsingar um söfnunina

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta