Hoppa yfir valmynd
15.02. 2023 Utanríkisráðuneytið

Sameinuðu þjóðirnar kalla eftir 400 milljónum vegna hörmunganna í Sýrlandi

Ljósmynd: UNOCHA/Mohanad Zayat - mynd

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fór í dag fram á tæplega 400 milljóna dala framlög til að standa straum af stuðningi við bágstadda í Sýrlandi vegna jarðskjálftanna. Sambærilegt ákall um aðstoð við Tyrkland er í undirbúningi. Að sögn Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, UNRIC, voru 50 milljónir dala greiddir úr Neyðarsjóði samtakanna strax eftir hörmungarnar.

„Skilvirkasta leiðin til að sýna fólkinu samstöðu er með því að láta fé af hendi í þessa söfnun vegna hamfaranna,“ sagði Guterres á blaðamannafundi í gær. „Okkur er öllum ljóst að lífsnauðsynleg aðstoð hefur ekki borist á þeim hraða og í því umfangi sem nauðsynlegt er. Þessar hamfarir eru með þeim skæðustu á síðustu árum. Viku eftir eyðileggingu jarðskjálftanna, róa milljónir manna lífróður, heimilislausir í frosthörkum. Við erum að gera allt sem við getum. En meira þarf til.“

Í frétt UNRIC segir að allt Sameinuðu þjóða kerfið og samstarfsmenn þess í mannúðarmálum muni leggjast á eitt til að koma brýnni, lífsnauðsynlegri hjálp til nærri fimm milljóna Sýrlendinga. „Þar á meðal eru skýli, heilbrigðisþjónusta, matvæli og vernd. Ellefu bíla lest er nú á leið um Bab Al-Salam landamærastöðina á mörkum Tyrklands og Sýrlands og margar fleiri eru á leiðinni,“ segir í fréttinni.

„Það má ekki auka á þjáningar af völdum þessara sögulegu náttúruhamfara með því að við bætist hindranir af mannavöldum; svo sem skortur á aðgangi, fjármagni og birgðum. Tryggja ber að aðstoð berist úr öllum áttum, frá öllum aðilum, um alla vegi, án hindrana,“ sagði Guterres.

Í gær fagnaði hann ákvörðun Sýrlandsstjórnar um að opna tvær landamærastöðvar á mörkum Tyrklands og norðvestur Sýrlands í þrjá mánuði svo hæt sé að koma mannúðaraðstoð til skila.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta