Hoppa yfir valmynd
08.03. 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland eykur stuðning sinn við UN Women, UNICEF og UNFPA

Ljósmynd: UN Women - mynd

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að hækka kjarnaframlög til UN Women, UNICEF og UNFPA sem eru þrjár áherslustofnanir Íslands í þróunarsamvinnu innan Sameinuðu þjóðanna. Hækkun framlaganna er umtalsverð og er hluti af aukinni áherslu íslenskra stjórnvalda á þróunarsamvinnu.

Kjarnaframlög eru þess eðlis að þau gefa stofnunum svigrúm til að bregðast við aðkallandi aðstæðum á sem skilvirkastan hátt. Ísland hefur lagt áherslu á slík framlög til þess að tryggja fyrirsjáanleika í samstarfinu, og til að gera stofnununum kleift að mæta þörfum þar sem þær eru mestar hverju sinni.

„Hækkun kjarnaframlaga til okkar helstu samstarfsstofnana Sameinuðu þjóðanna kemur til í samhengi aukinnar neyðar í Úkraínu vegna innrásar Rússlands, sem og ástandsins í Afganistan. Þá er mikilvægt að nefna að efnahags- og mannúðarlegar afleiðingar innrásar Rússlands í Úkraínu á fátæk ríki víðs vegar um heim eru gífurlegar. Þess vegna er lykilatriði að styrkja áherslustofnanir okkar hjá Sameinuðu þjóðunum enda eru þær vel í stakk búnar til að takast á við þessar áskoranir í nánu samstarfi við heimamenn,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Til viðbótar við kjarnaframlög er samstarf Íslands við UN Women í þróunarsamvinnu viðamikið. Ísland styður verkefni stofnunarinnar sem miða að valdeflingu kvenna í Palestínu og Malaví og styður einnig við verkefni UN Women tengt griðarstöðum sýrlenskra kvenna í flóttamannabúðum í Jórdaníu. 

Þá er Ísland forysturíki í aðgerðabandalagi Kynslóð jafnréttis (Generation Equality Forum) – sem UN Women stendur fyrir - sem starfar að upprætingu kynbundins ofbeldis gagnvart konum og stúlkum. Skuldbindingar Íslands í verkefninu snúa að aðgerðum til að uppræta kynbundið ofbeldi með auknum forvörnum, bættu samráði um aðgerðir gegn ofbeldi, og eflingu þjónustu og stuðningsúrræða við bæði þolendur og gerendur.

Stærstu samstarfsverkefni Íslands og UNICEF hafa verið vatns- og hreinlætisverkefni í samstarfslöndum Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu, Malaví, Úganda og, frá og með þessu ári, einnig Síerra Leóne. Þá styrkir Ísland einnig landaskrifstofu UNICEF í Palestínu, ásamt því að styrkja jafnréttissjóð UNICEF sem vinnur að eflingu menntunar stúlkna. Þá er Ísland langtíma stuðningsaðili samstarfsverkefnis UNICEF og UNFPA um afnám kynlimlestingar kvenna.

Meginverkefni Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) er að bæta og tryggja kyn- og frjósemisheilbrigði og réttindi, og gegnir stofnunin í lykilhlutverki í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Starfsemi UNFPA í alvarlegu mannúðarástandi er umfangsmikið, og hefur Ísland styrkt verkefni stofnunarinnar í Úkraínu og Afganistan. Þá hafa UNFPA og utanríkisráðuneytið nýlega sett af stað samstarfsverkefni í Malaví sem snýr að útrýmingu fæðingarfistils í landinu á næstu árum, og byggir verkefnið á góðum árangri í svipuðu samstarfsverkefni í Síerra Leóne.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta