Hoppa yfir valmynd
15.03. 2023 Utanríkisráðuneytið

UNICEF: Stóraukin hætta á vannæringu barna í Sýrlandi

Ljósmynd: UNICEF - mynd

Í dag eru tólf ár frá upphafi stríðsátaka í Sýrlandi og milljónir sýrlenskra barna eru í stóraukinni hættu á vannæringu, segir UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Ekkert lát er á átökum stríðandi fylkinga í landinu og jarðskjálftarnir stóru í síðasta mánuði hafa enn aukið neyð almennings.

Frá upphafi átakanna í Sýrlandi 15. mars 2011 hafa nærri 13 þúsund börn látið lífið og særst samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Heil kynslóð barna hefur verið svipt barnæsku sinni og þekkir ekkert annað en átök, ótta og sífelldan flótta undan árásum.

Áætlað er að ríflega 609 þúsund sýrlensk börn undir fimm ára aldri glími við vaxtarröskun vegna langvarandi vannæringar sem getur haft óafturkræf áhrif á líkamlegan og andlegan þroska þeirra til frambúðar. Tíðni bráðavannæringar hefur sömuleiðis aukist. Á milli áranna 2021 og 2022 varð 48 prósenta aukning í tilfellum alvarlegrar bráðavannæringar hjá börnum á aldrinum 6-59 mánaða. Vannæring af því tagi veikir ónæmiskerfi barna og þau eru ellefu sinnum líklegri til að láta lífið vegna ýmissa veikinda en ella. Langdregin átök gera það einnig að verkum að efnahagur landsins er í molum og nú lifa 90 prósent íbúa í fátækt. Verst koma þessar efnahagsþrengingar niður á velferð og réttindum barna.

Fyrir jarðskjálftana stóru í febrúar þurftu ríflega 3,7 milljónir sýrlenskra barna á næringaraðstoð að halda og nærri 7 milljónir á mannúðaraðstoð að halda. Ljóst er að neyðin eftir hamfarirnar hefur stóraukist.

 Líf á bláþræði

„Sýrlensk börn geta ekki beðið lengur. Eftir áralöng stríðsátök og tvo skelfilega jarðskjálfta hangir framtíð milljóna barna á bláþræði,“ segir Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku. „Það er á sameiginlega ábyrgð okkar allra að sýna þessum börnum að framtíð þeirra skiptir máli og sé líka okkar forgangsatriði. Við verðum að bregðast við þörfum barna hvar sem þau eru í Sýrlandi og styðja við þau kerfi sem veita þá mikilvægu þjónustu sem þau þurfa svo nauðsynlega á að halda,“ segir Khodr.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, vinnur þrotlaust að því ásamt samstarfsaðilum að bæði greina vannæringu barna tímanlega en einnig að veita og auka við lífsbjargandi meðferðarþjónustu við vannærð börn. UNICEF útvegar einnig mikið magn hjálpargagna, sjúkragagna og heilbrigðisþjónustu, aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisþjónustu til að auka lífslíkur barna í neyð. Löngu áður en núverandi átök hófust í Sýrlandi fyrir tólf árum og allar götur síðan hefur UNICEF verið á vettvangi og til staðar fyrir sýrlensk börn. Aldrei fyrr hafa fleiri börn þurft á aðstoð að halda. 

UNICEF á Íslandi hefur frá upphafi átakanna haldið úti neyðarsöfnun fyrir börn í Sýrlandi. Hægt er að styðja við verkefni UNICEF í þágu sýrlenskra barna hér.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta