Hoppa yfir valmynd
21.03. 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland styður kosningaverkefni Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna í Síerra Leóne

Pa Lamin Beyai fulltrúi UNDP og Mohamed Kenewui Konneh formaður yfirkjörstjórnar Síerra Leoné með samning um verkefnið. Ljósmynd: UNDP - mynd

Utanríkisráðuneytið og Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna, UNDP, hafa gert með sér samning um að Ísland leggi fram tæplega 30 milljónir króna – 200 þúsund bandaríska dali – í sérstakan sjóð í umsjón UNDP sem ætlað er að stuðla að friðsamlegri framkvæmd fyrirhugaðra kosninga í landinu í júní á þessu ári. Framlaginu er sérstaklega ætlað að stuðla að því að kjósendur nýti kosningarétt sinn, ekki síst konur, ungmenni og fólk með fötlun.

Almennar kosningar verða haldnar í Síerra Leóne í júní og kosið verður til forseta, þings og sveitarstjórna í landinu. Þetta verða fimmtu kosningarnar í landinu frá því borgarastríðinu lauk árið 2002. Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna, UNDP, hefur veitt stjórnvöldum stuðning í tengslum við fyrri kosningar og hefur nú sett á laggirnar tveggja ára verkefni sem ætlað er að efla skipulag og framkvæmd kosninga og stuðla að friðsamlegum kjördegi.

Að mati UNDP er stuðningur við lýðræðisuppbyggingu og kosningar áfram talið mikilvægt viðfangsefni því þrátt fyrir almennt friðsælt stjórnmálaástand undanfarin ár og tiltölulega friðsamlegar kosningar árið 2018, glímir Síerra Leóne við fjölmargar áskoranir varðandi stjórnarhætti og stjórnarfar. Vantraust til stjórnvalda hefur til dæmis aukist. Óeirðir brutust út milli borgara og lögreglu í ágúst síðastliðnum sem má rekja til versnandi lífskjara fólks í landinu vegna hárrar verðbólgu og hækkandi olíuverðs.

Tveggja ára verkefninu sem Ísland styrkir er ætlað að styðja við undirbúning, framkvæmd og eftirmála kosninganna. Það samanstendur af þremur meginþáttum:

  • styrkja getu landskjörstjórnarinnar og annarra stofnana sem koma að framkvæmd kosninganna til að gera þeim kleift að sinna hlutverki sínu á skilvirkan hátt;
  • auka gagnsæi í kosningaferlinu í gegnum vitundarvakningu og aðgengi almennings að hlutlægum upplýsingum; og
  • efla gagnsæi og tryggja þátttökumöguleika allra hópa í samfélaginu með sérstaka áherslu á konur, ungmenni og fatlað fólk en þessir hópar hafa átt á brattann að sækja þegar kemur að skráningu á kjörskrá og við greiðslu atkvæða í kosningum.

Einnig verður veittur stuðningur eftir að kosningum lýkur, með áherslu á aðgerðir sem stuðla að langtímauppbyggingu friðar, öryggis og trausts milli borgara og valdhafa.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
10. Aukinn jöfnuður

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta