Hoppa yfir valmynd
27.03. 2023 Utanríkisráðuneytið

Fyrrverandi nemendur GRÓ skólanna hittast í fyrsta sinn í Kenía

Nokkrir af fyrrverandi nemendum GRÓ skólanna ásamt fulltrúum UNESCO og GRÓ. - mynd

Kenía stæði ekki jafn framarlega í nýtingu jarðvarma eins og raun ber vitni ef ekki hefði komið til samstarfsins við Jarðhitaskólann á Íslandi. Þetta er álit fyrrverandi kenískra nemenda skólans, sem hittust á fyrsta sameiginlega viðburði GRÓ í Næróbí fyrr í mánuðinum. Auk Jarðhitaskólans hafa Sjávarútvegsskóli og Jafnréttisskóli GRÓ starfað í landinu.

Kenía hefur verið eitt helsta samstarfsríki GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu. Samstarfið við Kenía nær aftur til ársins 1982, eða í rúma fjóra áratugi. Flestir útskrifaðir nemendur eru frá Kenía, 175 talsins, þar af sóttu 146 nám í Jarðhitaskólanum. Af heildarfjöldanum hafa 29 fengið styrki tl meistaranáms og níu til doktorsnáms.

GRÓ starfar undir merkjum UNESCO, Menningar-, vísinda- og menntastofnunar Sameinuðu þjóðanna og starfrækir fjóra skóla hér á landi, sem áður voru kenndir við Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Fundurinn fram á svæðisskrifstofu UNESCO fyrir Austur-Afríku, sem staðsett er í Nærobí en 30% af fyrrverandi nemendum GRÓ koma frá því svæði. Starf GRÓ er fjármagnað af utanríkisráðuneytinu, sem hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.

Margir kenískir fyrrverandi nemendur Jarðhitaskólans hafa verið leiðandi í þróun nýtingar jarðvarma í heimalandinu. Nokkrir þeirra lýstu því mikilvæga hlutverki sem Jarðhitaskólinn hefur gegnt í jarðhitamálum í landinu og hvernig rannsóknir nemendanna hafi stuðlað að nýtingu á jarðhitaauðlindinni með svo góðum árangri að 47 prósent allrar raforku í landinu kemur í dag frá jarðvarmavirkjunum. Kenía framleiðir meira rafmagn með jarðvarma en Ísland, en uppsett afl í jarðvarmavirkjunum í Kenía var 944 MW í lok árs 2021 en 756 MW á sama tíma á Íslandi.

Á viðburðinum flutti Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ, kynningu á sögu og starfi GRÓ í Austur-Afríku og dr. Alexandros Makarigakis, deildarstjóri náttúruvísindasviðs og svæðisvatnafræðingur hjá svæðisskrifstofunni, kynnti starf UNESCO á svæðinu. Markmið viðburðarins var tvíþætt, annars vegar að kanna hvernig efla megi samstarf GRÓ og svæðisskrifstofu UNESCO í Kenía, og hins vegar hvernig GRÓ getur stuðlað að virku tengslaneti fyrrverandi nemenda skólanna í þessum heimshluta.

Nánar á vef GRÓ

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka
14. Líf í vatni
15. Líf á landi
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta