Hoppa yfir valmynd
29.03. 2023 Utanríkisráðuneytið

Ísland eykur stuðning við friðaruppbyggingu og sáttamiðlun á vegum Sameinuðu þjóðanna

Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, undirritaði samstarfssamninginn fyrir hönd Íslands ásamt varaframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Rosemary A. DiCarlo. - mynd

Íslensk stjórnvöld hafa gert nýjan fjögurra ára samstarfssamning við skrifstofu alþjóðastjórnmála og friðaruppbyggingar hjá Sameinuðu þjóðunum, Department of Political and Peacebuilding Affairs, DPPA. Framlag Íslands verður tvöfalt hærra en fyrri samningur og framlagið nemur 20 milljónum króna á ári í takt við langtímaáætlun DPPA, sem gildir næstu fjögur árin, 2023-2026. Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, undirritaði samstarfssamninginn fyrir hönd Íslands ásamt varaframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Rosemary A. DiCarlo.

Stuðningurinn miðar að því að tryggja forystuhlutverk Sameinuðu þjóðanna við friðaruppbyggingu og sáttamiðlun víðs vegar í heiminum. Þar að auki vinnur DPPA sérstaklega að virkri þátttöku kvenna í slíkum umleitunum auk þess að tryggja samræmi og samlegð milli öryggismála, þróunarsamvinnu og mannréttindamála. Þær áherslur falla sérstaklega vel að þjóðaröryggisstefnu Íslands og samstarfið er lykilhluti af þróunarsamvinnustefnu Íslands um fyrirbyggjandi störf í þágu friðar með áherslu á þátttöku kvenna. 

„Nýr fjögurra ára samningur við DPPA með tvöfalt hærri framlögum undirstrikar áframhaldandi áherslu Íslands á forystuhlutverki Sameinuðu þjóðanna í friðaruppbyggingu og sáttamiðlun. Við sjáum fjölgun átaka í heiminum og aukna spenna í alþjóðamálum. Það er áhersluatriði af hálfu Íslands að úrlausn þeirra byggist á friðarferlum sem taka mið af alþjóðalögum og framkvæmd eru með virkri þátttöku kvenna,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Ísland hefur frá árinu 2018 stutt DPPA en stuðningurinn skiptir miklu máli fyrir getu Sameinuðu þjóðanna til að bregðast við verkefnum sem ekki er gert ráð fyrir í kjarnaframlögum og kallað er eftir með skömmum fyrirvara. DPPA styður þannig við friðaruppbyggingu og sáttarferli um heim allan, ekki síst í þeim þrjátíu löndum þar sem sérstakir erindrekar samtakanna starfa, auk þess að starfa með öðrum undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Samstarfið stuðlar með beinum hætti að framfylgd heimsmarkmiðanna um frið og réttlæti (16), jafnrétti kynjanna (5) og samvinnu um heimsmarkmiðin (17).

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
5. Jafnrétti kynjanna
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta